Samkvæmt könnun Maskínu sem birt var í dag mælast Píratar með 4,9 prósenta fylgi á landsvísu sem gæti þýtt að hreyfingin fengi ekki kjörinn fulltrúa á Alþingi. Í nýlegum könnunum hefur flokkurinn þó mælst með rúmlega sex prósenta fylgi í Suðvesturkjördæmi, sem sennilega myndi duga fyrir þingmanni. Þá fengii flokkurinn væntanlega jöfnunarmann eða menn.

Í Samtalinu með Heimi Má sem sýnt verður í opinni dagskrá á Stöð 2 strax að loknum fréttum og Íslandi í dag í kvöld, er meðal annars farið yfir erjur í tengslum við kjör til framkvæmdastjórnar flokksins á nýlegum aðalfundi Pírata. Þórhildur Sunna segist vona að gróið sé um þau mál og almennt væri góður baráttuandi í hreyfingunni nú í aðdraganda kosninga.
Hún segir Pírata telja rétt að boða fljótlega til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið og þá alveg sérstaklega eftir að Donald Trump var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Þar með taka Píratar svipaða stefnu og Viðreisn. Þórhildur Sunna segir ekki meiga bíða of lengi með þá þjóðaratkvæðagreiðslu þótt hún verði að fara fram að undangenginni góðri umræðu.
Píratar hafa einnig á stefnuskrá sinni að koma á fót sérstakri stofnun sem fari með rannsókn spillingar.
Málefni útlendinga, skattamál og spillingarmál bar einnig á góma í Samtalinu sem sýnt verður klukkan 19:10 í opinni dagskrá á Stöð 2 í kvöld. Þátturinn verður síðan birtur fljótlega eftir það á Vísi.