Tilnefningarnar munu reyna á hollustu þingmanna við Trump en Repúblikanar eru með 53 þingmenn í öldungadeildinni gegn 47 þingmönnum Demókrataflokkins. Það þýðir að einungis þrír þingmenn flokksins þurfa að standa gegn tilnefningu til að koma í veg fyrir þær, verði yfir höfuð haldnir þingfundir og atkvæðagreiðslur um tilnefningar Trumps.
Trump hefur farið fram á að nýr leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni geri honum kleift að tilnefna menn í embætti án þess að þingmenn þurfi að greiða atkvæði um það.
Sjá einnig: Vill losna við tálma úr vegi sínum
Þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni völdu í gær þingmanninn John Thune til að taka við af Mitch McConnell og leiða þingflokkinn. Hann er 63 ára gamall og frá Suður-Dakóta og mun taka við stjórnartaumunum í janúar.
Hann sigraði þá John Cornyn frá Texas og Rick Scott frá Flórída í baráttunni um leiðtogasætið en Trump-liðar höfðu margir lýst yfir stuðningi við Scott. Hann hafði lýst því yfir að hann myndi gera Trump kleift að tilnefna menn án aðkomu þingsins en eftir að úrslitin lágu fyrir í gær, gaf Thune til kynna að tilnefningar yrðu teknar fyrir í þinginu, án þess þó að segja það berum orðum.
Í frétt New York Times um Thune kemur fram að hann og Trump hafi deilt í gegnum árin og var Thune til að mynda einn þeirra sem hvatti Trump til að hætta framboði sínu árið 2016, eftir að myndband af honum að stæra sig af því að geta gripið í píkur kvenna í skjóli frægðar sinnar leit dagsins ljós.
Trump hefur þó síðan þá náð fullum tökum á Repúblikanaflokknum. Hans helstu andstæðingar eru allir farnir á brott og aðrir hafa verið hýddir til hlíðni. Það hefur sýnt sig innan flokksins að ef þú ferð gegn Trump, þá er þér hafnað í forvali innan flokksins.
Öldungadeildarþingmaðurinn Tommy Tuberville sló á þá strengi í viðtali við Fox í gær, þar sem hann sagði að ef einhverjir þingmenn stæðu í vegi tilnefningar Geatz yrði þeim komið úr flokknum.
Þrjár umdeildar tilnefningar
Þær þrjár tilnefningar sem hafa vakið hvað mesta athygli er tilnefning sjónvarpsmannsins Pete Hegseth í embætti varnarmálaráðherra, tilnefning þingmannsins Matt Gaetz í embætti dómsmálaráðherra og tilnefning Tulsi Gabbard í embætti yfirmanns leyniþjónusta Bandaríkjanna.
Blaðamenn New York Times segja þessum tilnefningum Trumps að hluta til ætlað að sýna Repúblikönum í öldungadeildinni hver ræður. Þingmennirnir muni verða fyrir gífurlegum þrýstingi um að staðfesta tilnefningarnar eða stíga hreinlega til hliðar og leyfa Trump að fara hjá þinginu, eins og hann hefur krafist.
Trump opinberaði tilnefningu Gaetz í gær og sagði hann strax af sér þingmennsku, þó ekki sé ljóst að tilnefning hans verði staðfest. Gaetz þykir einstaklega óvinsæll meðal þingmanna Repúblikanaflokksins.
Í kjölfarið voru sagðar fréttir af því vestanhafs að siðanefnd fulltrúadeildarinnar átti að greiða atkvæði á morgun, föstudag, um að birta skýrslu um rannsókn nefndarinnar á Gaetz. Nú er búið að hætta við atkvæðagreiðsluna.
Gaetz var rannsakaður af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna vegna gruns um að hann hefði átt í kynferðislegu sambandi við sautján ára stúlku, gegn greiðslu, og mögulega brotið lög gegn mansali.
Gaetz og þáverandi pólitískur bandamaður hans, Joel Greenberg, voru grunaðir um að greiða ungum konum og vændiskonum peninga eða gefa þeim gjafir í skiptum fyrir kynlíf. Greenberg sagði í skjali þar sem hann gekkst við sekt að hann hefði greitt konum og í einu tilfelli stúlku undir lögaldri fyrir að hafa mök við hann sjálfan og aðra menn.
Rannsókninni var þó hætt og Gaetz ekki ákærður.
Sjá einnig: Gaetz ekki ákærður vegna mansals
Siðanefndin hefur þó haldið rannsókninni áfram og hefur hún meðal annars snúið að því að Gaetz hafi sýnt myndir af nöktum konum í þingsal, framið kynferðisbrot og neytt ólöglegra lyfja.
Gaetz hefur verið ötull stuðningsmaður Trumps í gegnum árin. Trump sagði að sem dómsmálaráðherra myndi Gaetz binda enda á vopnavæðingu ráðuneytisins, verja landamæri Bandaríkjanna og endurvekja trú Bandaríkjamanna á réttarkerfið.
Hann myndi þar að auki binda enda á kerfisbundna spillingu í dómsmálaráðuneytinu.
Eins og fram kemur í frétt Washington Post hafa starfsreglur ráðuneytisins, sem samdar voru í kjölfar Watergate-hneykslisins, tekið mið af því að takmarka áhrif Hvíta hússins á ákvarðanir sem varða réttarkerfið.
Trump-liðar sem komið hafa að undirbúningi fyrir annað kjörtímabil hans, hafa sagt að Trump muni koma böndum aftur á dómsmálaráðuneytið. Þá hefur Trump sjálfur heitið því að beita ráðuneytinu gegn gagnrýnendum hans og pólitískum andstæðingum.
Sjá einnig: Ætlar að hætta áður en Trump rekur hann
Þá kemur fram í frétt WP að Gaetz hafi verið á ferð með Trump í Washington DC í gær og samkvæmt heimildum miðilsins tók Trump ákvörðun um að tilnefna þingmanninn fyrrverandi eftir að hafa varið deginum með honum. Nafn hans hafði hvergi verið bendlað við ráðuneytið áður og kom tilkynning Trumps flestum í opna skjöldu.
Einn heimildarmaður WP úr innstu röðum Trumps sagði tilkynninguna hafa slegið sig. Hann sagði að tilnefning Gaetz yrði líklega aldrei staðfest af þingmönnum öldungadeildarinnar, og því yrði hún að fara fram hjá þinginu.
Samsæringur yfir leyniþjónustunum
Trump tilkynnti einnig í gær að hann ætlaði sér að tilnefna Tulsi Gabbard til embættis yfirmanns leyniþjónusta Bandaríkjanna. Hún er fyrrverandi þingkona fyrir Demókrataflokkinn frá Havaí og var á árum áður hermaður.
Hún yfirgaf Demókrataflokkinn árið 2022 og lýsti yfir stuðningi við Trump í ágúst. Þá gerði hann hana að næstráðandi í undirbúningsteymi sínu fyrir komandi kjörtímabil hans í Hvíta húsinu.
Gabbard hefur enga reynslu af leyniþjónustumálum en sem yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna myndi hún sjá um rekstur átján stofnana sem fá um 76 milljarða dala frá í fjárlögum á ári hverju.
Hún hefur einnig í gegnum árin sýnt mikla samstöðu með Vladimír Pútín og Bashar al-Assad, einræðisherrum Rússlands og Sýrlands, í gegnum árin. Árið 2017 ferðaðist hún til Sýrlands og fundaði með Assad og einangraði hún sig þá töluvert frá öðrum innan Demókrataflokksins.
Gabbard hefur einnig ítrekað básúnað áróður frá Rússlandi í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu og meðal annars haldið því fram að Bandaríkjamenn hafi rekið fjölda rannsóknarstofa í Úkraínu þar sem efnavopn voru þróuð, sem er ekki rétt og samsæriskenning sem dreift hefur verið af Rússum á undanförnum árum.
Ríkismiðlar Rússlands hafa ítrekað fjallað um hana með jákvæðum hætti í gegnum árin og lýst henni sem bandamanni Rússlands.
Washington Post hefur eftir Alex Floyd, talsmanni landsnefndar Demókrataflokksins, að tilnefning Gabbard sé ógn gegn Bandaríkjunum. Samsæringur sem tekið hafi afstöðu með andstæðingum Bandaríkjanna eigi ekki heima í sæti stjórnanda leyniþjónusta Bandaríkjanna.
„Enn einu sinni sýnir Trump með vali sínu að þegar kemur að þjóðaröryggi og stöðu okkar á alþjóðasviðinu, kemur hollusta við hann fyrst, og Bandaríkin síðust.“
Vill hreinsa til í leyniþjónustunni...
Trump hefur sagt að hann vilji gera umfangsmiklar breytingar innan leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna, eins og hann vill gera innan margra annarra deilda ríkisins. Hann hefur lengi verið bitur út í leyniþjónustur Bandaríkjanna og sakað starfsmenn þeirra og yfirmenn um að reyna að grafa undan fyrsta framboði hans til forseta.
Þá hefur hann lýst leyniþjónustusamfélaginu svokallaða sem hluta af „djúpríkinu“ og hefur heitið því að hreinsa þaðan spillta aðila, eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar.
Hún myndi væntanlega leiða þá vinnu fyrir Trump, sem yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna.
...og í varnarmálaráðuneytinu
Svipaða sögu er að segja af tilnefningu Trumps til embættis varnarmálaráðherra. Hann hefur lýst því yfir að hann vilji sjónvarpsmanninn Pete Hegseth í embættið en hann vinnur hjá Fox og hefur verið einn stjórnenda Fox and Friends, þar sem Trump hefur verið tíður gestur á undanförnum árum.
Hegseth er einnig uppgjafahermaður en er að öðru leyti talinn frekar reynslulaus fyrir embætti varnarmálaráðherra.
Hann hefur í gegnum árin lýst yfir mikilli andstöðu við það sem hann og aðrir kalla „woke“ verkefni innan hersins, þar sem ýtt er undir jafnrétti og jafna þátttöku, og að reka eigi alla herforingja sem komið hafa að slíkum verkefnum.
Hann hefur einnig gefið til kynna að hann sé mótfallinn því að konur fái að taka þátt í bardögum.
Meðal annars hefur Hegseth sagt að fjölbreytileiki í hernum sé styrkleiki, í því samhengi að hvítir menn og menn úr minnihlutahópum geti staðið sig svipað vel í átökum, þá eigi það sama ekki við konur.
Hegseth hefur einnig hvatt til þess að náða hermenn sem sakfelldir hafa verið fyrir stríðsglæpi. Það gerði Trump árið 2019, þegar hann náðaði þrjá menn sem höfðu verið sakaðir og dæmdir fyrir stríðsglæpi.
Trump hefur einnig talað um nauðsyn þess að taka til í varnarmálaráðuneytinu.