Skoðun

Sjálf­stæðis­flokkurinn boðar skatta­lækkanir á þá efna­mestu

Haukur V. Alfreðsson skrifar

Er erfðafjárskattur ekki ósanngjörn tvískattlagning? Fólk sem búið er að afla sér tekna og greiða af þeim skatt vill að þær nýtist börnunum sínum en þá kemur skatturinn með enn meiri og ósanngjarnan skatt. Þetta viðhorf ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að herja á með kosningaáherslunni “Helmingum erfðafjárskatt og fjórföldum frítekjumarkið í 20 milljónir króna”. Hér er þó í reynd verið að slá ryki í augun á millistéttarfólki. Gefa þeim smá mylsnu en virkilega aðstoða stóreignafólk.

Hjá millistéttarfólki er erfðafé að miklu leiti bundið í heimili viðkomandi, þ.e. fasteign. Eftir því sem fólk verður efnaðara aukast líkurnar á því að eignir þeirra séu bundnar í fjölbreyttara eignasafni og innihaldi ýmis verðbréf. Verðmæti þessara eigna kunna að hafa aukist, oft á tíðum verulega, frá því að einstaklingur eignast þær og þar til þær erfast án þess að nokkurntímann hafi verið greiddur fjármagnstekjuskattur af virðisaukningunni[1]. Þannig er erfðafjárskatturinn fyrsta skattlagning þess látna af stórum hluta þessara eigna ef hann var eignamikill og því mun helmingun erfðafjárskattsins veit erfingjum hans meiriháttar skattaafslátt[2].

Nær væri að breyta eingöngu frítekjumörkunum ef hugsa á um meðalmanninn, lækkun skattprósentunnar sjálfrar gagnast þeim efnameiri langt um meira en meginþorra almennings.

Höfundur er áhugamaður um skattkerfi.



[1] Verðmat fyrirtækja í atvinnurekstri hefur gjarnan veikt samband við greiddan skatt í rekstrinum og því mikilvægt að árétta að ekki er hægt að fullyrða að verðmæta aukning slíkra eigna sé þegar skattlögð.

[2] Nú benda eflaust e-h á að efnafólk flytur einfaldlega tímabundið erlendis til að komast hjá skattlagningunin hvort eð er. En það er einnig mannanna verk en ekki lögmál að hafa svo glopótt lög.




Skoðun

Sjá meira


×