ÍR-ingar greindu frá þessu í dag og bjóða Björgvin hjartanlega velkominn aftur, en hann lék með ÍR árin 2014-2016.
Björgvin, sem er uppalinn hjá Skallagrími, spilaði sjö leiki með Grindavík í Bónus-deildinni nú í haust en lék að meðaltali aðeins um átta mínútur, skoraði þrjú stig og tók tæplega þrjú fráköst.
Björgvin lék fyrir uppeldisfélag sitt Skallagrím í 1. deild á síðustu eiktíð og skoraði þá að meðaltali 11,4 stig í leik, tók 7,8 fráköst og gaf 5,3 stoðsendingar. Hann var áður einnig hjá Grindavík og hefur auk þess spilað með Tindastóli og Fjölni.
ÍR-ingar, sem á dögunum kynntu Borche Ilievski sem þjálfara sinn á nýjan leik, unnu sinn fyrsta sigur í síðustu umferð Bónus-deildarinnar, 101-96 gegn Njarðvík á útivelli. Þeir mæta svo Íslandsmeisturum Vals á föstudaginn í fyrstu umferð eftir landsleikjahléið.