Innlent

Opna Grinda­vík á ný

Árni Sæberg skrifar
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Vísir

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið í samvinnu við Grindavíkurnefndina að auka aðgengi að Grindavíkurbæ. Bænum var lokað á miðvikudag þegar enn eitt eldgosið hófst á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fréttatilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að hægt sé að keyra inn og út úr bænum um Nesveg og Suðurstrandarveg. Lokunarpóstar séu á Grindavíkurvegi nærri gatnamótum Reykjanesbrautar  og staðan þar sé óbreytt. 

Þá sé lokunarpóstur á Grindavíkurvegi við gatnamót Nesvegar. Vegna framkvæmda við varnargarða og þá miklu umferð þungra vinnuvéla inn í Svartsengi þyki nauðsynlegt að takmarka þar alla almenna umferð. 

Hér má sjá hvar lokunarpóstarnir eru.Lögreglan á Suðurnesjum

Ekki hætta af hraunrennsli

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að helsta hættan af eldgosinu inni í Grindavík sé loftmengun. Loftgæði hafi mælst viðunandi inni í bænum og því hafi hann ákveðið, í góðu samráði við Grindavíkurnefndina, að opna bæinn. Ekki sé talin nein hætta af hraunrennsli inni í bænum.

Sem áður segir verður áfram lokað inn í Svartsengi vegna vinnu við að hækka varnargarða. Úlfar segist telja að sú vinna taki einhverjar vikur.


Tengdar fréttir

Engar rusla­tunnur í Grinda­vík

Verulega dró úr virkni í eldgosinu við Sundhnúksgíga í nótt. Unnið er hörðum höndum að hraunkælingu í Svartsengi, svo auðveldara sé að hækka varnargarða. Þá er Grindavík að verða að ruslatunnulausum bæ. 

Stöðugt gos og engir skjálftar

Enn gýs á þremur stöðum í eldgosinu við Sundhnúksgíga og hefur virknin verið stöðug í nótt. Mest er hún sögð við miðbik gossprungunnar og hafa engir jarðskjálftar mælst í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×