Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í hvaða verslunarmiðstöð maðurinn lét öllum illum látum, aðeins að óskað hefði verið skjótrar aðstoðar.
Níu manns gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Nokkrir þeirra áttu í átökum í miðborg Reykjavíkur. Einn réðst á dyraverði við skemmtistað og sparkaði í lögreglumenn og vegfaranda sem átti leið hjá. Sá var handjárnaður og fluttur á lögreglustöð. Bræði hans var þó sögð slík að lögreglumenn gátu ekki rætt við manninn.
Svipaða sögu var að segja af manni sem réðst á annan á öðrum skemmtistað. Sá brást illa við afskiptum lögreglu og reyndi að hrækja á og bíta laganna verði. Hann er sagður hafa haldið uppteknum hætti þegar á lögreglustöðina var komið. Hann hafi því verið vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.
Þá var tilkynnt um að ökumaður hefði lent í árekstri og stungið af í miðborginni. Sást til mannsins ganga inn í íbúðarhús skammt frá og var hann sagður hafa virst slompaður. Hann var handtekinn grunaður um ölvunarakstur og fyrir að gera ekki ráðstafanir við umferðaróhapp.