Upp­gjörið og við­töl: ÍR - Grinda­vík 98-90 | ÍR sigraði í framlengdri rússibanareið

Árni Jóhannsson skrifar
Grindavík-Höttur, körfubolti, bónusdeildin,
Grindavík-Höttur, körfubolti, bónusdeildin, vísir/Anton

Grindvíkingar voru í fínni stöðu í hálfleik í Breiðholtinu og leiddu með níu stigum en heimamenn í ÍR komu á hvínandi siglingu út í seinni hálfleikinn og virtust vera að sigra en Grindavík kom til baka og jafnaði. ÍR hafði svo betur í framlengdum leik. Lokatölur 98-90

Grindvíkingar komu betur stemmdir til leiks í kvöld og tóku snemma fína forystu í fyrsta leikhluta. Nánast fullkominn þriggja stiga nýtingu var að þakka, meðal annars, en gestirnir hittu úr fimm af fyrstu sex þriggja stiga skotunum sínum. ÍR-ingar þurftu að taka leikhlé og ráða ráðum sínu en þeir voru lentir 11 stigum undir. Það skilaði sér því leik ÍR-inga batnaði og Grindvíkinga versnaði. Náðu heimamenn að toga gestina nær sér í stöðuna 18-24.

Grindavík hætti að hitta þristunum en þegar þeir náðu aftur tökum á leiknum náðu þeir að skora í litlum sprengingnum á móti því ða ÍR voru klaufar þegar þeir voru alveg að fara að ná í skottið á Grindvíkingum. Þegar um mínúta var eftir af fyrri hálfleik var staðan 39-42 en Grindvíkingar áttu þá síðustu sex stig háfleiksins og leiddu með níu stigum 39-48 þegar gengið var til búningsherbergja. 

Það voru blikur á lofti varðandi kólnun í sóknarleik gestanna í fyrri hálfleik en hann gjörsamlega fraus í þeim seinni. Þeir skoruðu eina körfu utan af velli fyrstu sjö mínútur seinni hálfleiksins og máttu þeir prísa sig sæla að heimamenn voru ekki í feikna stuði. Stuðið óx þó þegar leið á og jöfnuðu heimamenn metin í 51-51 þegar um tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Grindavík rankaði þá við sér komst aftur fjórum stigum yfir en ÍR átti næsta áhlaup og komust yfir í lok leikhlutans 60-58.

ÍR voru svo sterkari aðilinn í fjórða leikhluta að mestu leyti og voru með fimm stiga forystu þegar 10 sekúndur voru eftir. Staðan var 82-77 en liðin skiptust þó á forystunni á köflum í fjórða leikhluta. Grindavík var ekki dautt úr öllum æðum. Daniel Mortensen stal boltanum og negldi niður þriggja stiga skoti og áttu gestirnir þá sjö sekúndur eftir. Grindvíkingar stálu svo boltanum og þegar hálf sekúnda lifði leiksins þá reyndi Valur Orri Valsson þriggja stiga skot og það var brotið á honum. Hann fékk því tækifæri á að vinna leikinn en staðan var 82-80 og þrjú víti á leiðinn.

Valur hinsvegar klikkaði á fyrsta vítinu. Næstu tvö setti hann niður og framlengja þurfti leikinn. Svakalegur endir. ÍR byrjaði betur í framlengingunni en Grindvíkingar seldu sig dýrt. Voru búnir að missa Devon Thomas út með fimm villur en Valur Orri Valsson stýrði liðinu í framlengingunni og átti mjög góðar rispur. ÍR hinsvegar náði að síga fram úr í lokin en víti og opin skoti vildu ekki niður hjá gestunum á meðan ÍR, með herkjum, náðu að bæta stigum á töfluna og hafa sigur 98-90 í hörkuleik.

Atvik leiksins

Það voru ansi mörg atvik leiksins. Ætli það verði ekki að velja lokasenu venjulegs leiktíma þegar Grindvíkingar nöguðu niður fimm stiga forskot sem gaf okkur framlengingu þar sem ÍR-ingar unnu frábæran sigur.

Stjörnur og skúrkar

Þó að Jakob Falko hafi verið einu frákast frá þrefaldri tvennu var hann ekki maður leiksins. Matej Kavas var góður fyrir ÍR líka en Björgvin Hafþór Ríkharðsson kom af bekknum með kraft og hraða sem ég tel að hafi verið ÍR-ingum til mikils gróða. Hann skoraði 11 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Hjá Grindavík er kannski hægt að finna skúrka leiksins en vítanýtingin, þegar upp er staðið, var ekki góð eða 60% og í svona leik þá er það dýrt spaug.

Umgjörð og stemmning

Frábær umgjörð, kaffið borið í mann og frábær stemmning. Stuðningsfylkingar beggja liða sýndu ekki neinn haustbrag á sér eftir jólafríið og úr var mikil skemmtun.

Dómarar leiksins

Auðvitað eru atviki í þessum leik sem má ræða og kvarta undan en það réð ekki úrslitum held ég. Góð frammistaða hjá þeim í kvöld.

Viðtöl:

Björgvin: Ég var frekar stressaður

Björgvin Hafþór Ríkharðsson var mjög flottur í kvöld þó hann hafi átt sök í máli þegar Grindvíkingar jöfnuðu metin undir lok leiksins. Hann var spurður að því hvað hafi skilað sigrinum í kvöld.

„Ég verð að segja að það hafi verið stuðningsmannasveitirnar báðum megin. Þær voru frábærar í kvöld en kannsk var okkar aðeins betri í kvöld. Góður sjötti maður sem leiddi okkur áfram.“

Undir lok venjulegs leiktíma voru ÍR-ingar fimm stigum yfir þegar 21 sekúnda var eftir en jöfnuðu metin á ótrúlegan hátt. Björgvin var beðinn um útskýringar frá hans bæjardyrum séð.

„Colin tekur frákast og sendir á mig. Í algjörri hreinskilni þá hefði ég átt bara að láta brjóta á mér en ég sendi boltann, þeir stela honum, setja þrist og úr er framlenging. Valur kannski óheppinn að vinna þetta ekki fyrir þá. Ég var feginn að komast í framlenginguna úr því sem komið var þá.“

Björgvin byrjaði leiktíðina með Grindvíkingum og átti mjög góðan leik í kvöld. Var eitthvað extra við þennan leik?

„Nei, ég var frekar stressaður fyrir þessum leik en eitthvað annað. Þetta er sá leikur sem ég hef beðið eftir síðan ég fór frá Grindavík. Ég vonaðist náttúrlega eftir því að vinna. Mig langaði einnig að takast á við Kane [Sem er að sinna einkamálefnum í heimalandinu] ég hefði óskað þess að hann hefði verið með í kvöld. Það var geggjað að spila á móti góðu liði í kvöld og geggjaður sigur.“

Hvað gefa svona sigrar liðinu?

„Við þurfum bara að láta kné fylgja kviði. Þessi sprettur sem við erum á, við þurfum að láta hann gilda og koma tvíefldir til leiks á Sauðárkrók eftir viku. Vonandi fáum við stuðningsmannasveitina með okkur þangað.“

Borche: Skrítinn leikur

Þjálfari ÍR, Borche Ilievski var ánægður með sína menn í kvöld þó hann hafi séð fullt af hlutum sem betur mættu fara fyrir framhaldið. Hann hafði mikið að segja enda maraþon leikur sem við fengum í Skógarselinu í kvöld.

„Ég veit ekki hvað við getum sagt um þetta. Við byrjuðum ekki vel en náðum að koma til baka með því að breyta nokkrum hlutum. Svo í þriðja leikhluta þá náðum við lítilli forystu sem við síðan skiptumst á við Grindavík. Í lokin þá var þetta mjög skrýtinn leikur. Við héldum að við værum að fara að vinna þetta en þeir tóku fimm núll sprett í lokin og jöfnuðu. Við vorum í raun og veru heppnir með að Valur hafði ekki hitt úr fyrsta vítinu hans í lokin. Það var lykilatriði í leiknum. Í framlenginguni náðum við svo að halda út.“

„Þetta var sigur liðsheildarinnar. Ég verð að segja að mínir menn æfðu vel í jólafríin og get ég ekki kvartað yfir því. Einhverra hluta vegna þá byrjuðum við samt hægt. Ég þarf að ræða það við mína menn en þetta er skrýtið. Við ætluðum að spila hratt en spiluðum mjög hægan bolta sérstaklega í fyrsta leikhluta en það lagaðist. Sérstaklega þegar Björgvin kom inn í leikinn, hann gefur okkur hraða og kraft. Þetta var skrýti leikur eins og ég sagði.“

„Möguleg útskýring er að Kane vantaði hjá Grindavík. Við undirbjuggum okkur undir það að stoppa hann og Devon Thomas. Það var ekki jákvætt fyrir okkur að Kane vantaði. Þetta var góður sigur fyrir okkur og ég er ánægður með sigurinn. Sérstaklega þar sem við töpuðum fyrir Haukum hérna.“

Hvernig sér Borche framhaldið og hvað er hægt að taka með sér úr þessum leik?

„Við eigum Tindastól í næsta leik og við vitum við hverju má búast þar. Við klikkuðum úr fullt af sniðskotum í kvöld og við þurfum að gera betur þar. Ég vona að við nýtum það betur á Sauðárkróki. Varnarlega þurfum við að stíga harðar fram. Við erum með hæfileikaríkt lið sóknarlega en varnarlega þurfum við að gera betur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira