Isavia lokaði austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar að skipun Samgöngustofu í gær, vegna þess að ekki er búið að fella tré í Öskjuhlíð sem hindri aðflug véla að brautinni. Hins vegar hefur verið óheimilt að nota hana að næturlagi frá 10. janúar síðastliðnum.
Ekki lent í myrkri og vestanátt
Félagið Norlandair stendur í áætlanaflugi, leiguflugi og sjúkraflugi. Flugrekstrarstjórinn segir vandræðin hafa verið næg þegar ekki mátti lenda á nóttunni.
„Við höfum þurft að hafna sjúkraflugi hingað inn til Reykjavíkur, í myrkri þar sem var sterk vestanátt,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair.
Útlit sé fyrir að veruleg röskun verði á sjúkraflugi.
„Og við erum að tala um sjúkraflug þar sem er bráðaþjónusta sem þarf, og tímaháð þjónusta. Það þarf að koma fólki á LSH á mjög stuttum tíma. Og hvað eigum við að gera? Við getum ekki lent. Staðan er bara grafalvarleg og þetta gengur ekkert upp.“
Pólitískri störukeppni verði að linna
Vandræðin vegna veðurs séu þegar byrjuð og muni halda áfram.
„Það eru mannslíf í húfi. Við verðum að hætta þessari pólitísku störukeppni, svo ég tali bara hreint út. Það verður að fara að gera eitthvað í þessu máli,“ segir Tómas.
Einhverjir nefni sjúkraflug til Keflavíkur, og þaðan sé hægt að koma sjúklingum til Reykjavíkur.
„Sannarlega rétt, en það er mjög tímafrekt. Það tekur allt að klukkutíma að koma sjúklingi frá Keflavík til Reykjavík með öllu því sem þarf.“
Leita á náðir stjórnmálanna
Félagið eigi fund með heilbrigðisráðuneytinu á morgun og viti til þess að velferðarnefnd hafi málið einnig til skoðunar.
„Þetta er sannarlega eitthvað sem verður að gera, burtséð frá því hvort borgarmeirihlutinn hafi fallið eða hvað er í gangi. Þetta þolir enga bið. Það verður bara að byrja á þessu núna í vikunni.“
Í huga Tómasar er aðeins ein lausn á málinu.
„Það verður að fella trén eða stytta þau verulega, taka ofan af þeim. Það er í raun ekkert annað sem hægt er að gera í stöðunni.“