Skoðun

Auð­lind þjóðarinnar

Eiríkur Björn Björgvinsson skrifar

Fyrr í dag kynntu atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra fyrirhugaða leiðréttingu á veiðigjaldi. 

Það er mikið fagnaðarefni að þjóðin fái loksins sanngjarnara gjald fyrir notkun á okkar sameiginlegu auðlind. Ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks Fólksins er einhuga um að við náum fram þessu réttlæti og að auðlindagjöld skuli renna að hluta til nærsamfélagsins. 

Strax í upphafi samstarf þessarar ríkistjórnar var hafist handa við að meta hvort að veiðigjald endurspeglaði í raun réttlát auðlindagjöld. Ljóst var í þeirri vinnu að gera þurfti breytingar svo að gjaldið endurspeglaði í raun verðmæti þess afla sem verið er að sækja í okkar sameiginlegu auðlind. 

Eitt af því sem oft er talinn styrkleiki í íslenskum sjávarútvegi er þessi lóðrétta samþætting – að sama fyrirtækið sér bæði um að veiða og vinna aflann. Vandinn er sá að þegar aflinn fer beint í eigin vinnslu, án þess að fara í gegnum opinn markað, þá verður ekkert raunverulegt markaðsverð til. Verðið verður bara ákveðið í samningum – ekki af frjálsum markaði. Ég fagna því fyrirhuguðum breytingum ráðherra á veiðigjaldi sem munu leiðrétta þessa skekkju. 

Gagnrýnendur hafa bent á að þessi leið sem nú verði farin muni hafa veruleg áhrif á litlu- og meðalstóru útgerðirnar. Það er mikilvægt að halda því til haga að svo verður ekki. Ráðherra hefur tilkynnt að samhliða verði frítekjumark hækkað sem mun gagnast þessum fyrirtækjum verulega. Það er ekki verið að hækka veiðigjald flatt án þess að koma til móts við sjónarmið þeirra fyrirtækja. 

Fiskurinn er ein verðmætasta auðlind þjóðarinnar, hann er líka í eigu hennar. Það er tímabært að gjöld fyrir afnot af henni endurspegli það verðmæti. 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×