Innlent

Allt á á­ætlun en spánarfarar beðnir um að fylgjast með

Árni Sæberg skrifar
Hvorki Icelandair né Play reiknar með truflunum á flugáætlun vegna rafmagnsleysis.
Hvorki Icelandair né Play reiknar með truflunum á flugáætlun vegna rafmagnsleysis. Vísir/Vilhelm

Allt flug Icelandair og Play til og frá Íberíuskaganum í dag er á áætlun. Flugfélögin fylgjast þó grannt með stöðu mála og hvetja farþega til að gera slíkt hið sama.

Víðtækt rafmagnsleysi hefur valdið usla á Spáni og í Portúgal síðan í morgun en tilkynningar um rafmagnstruflanir byrjuðu að berast upp úr hádegi að spænskum tíma í dag, að sögn spænska blaðsins El País. Þær hafa borist frá öllum sjálfstjórnarhéruðum landsins, fyrir utan Balear- og Kanaríeyjar, og Portúgal. 

Samkvæmt rauntímagögnum virðist orkunotkun hafa dregist saman um helming á landsvísu á Spáni frá hádegi.

Flugvellir keyrðir á varaafli

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, lenti flugvél félagsins á flugvellinum í Barselóna á Spáni upp úr hádegi. Flugvöllurinn sé keyrður á varaafli og rafmagnsleysið hafi ekki haft áhrif á áætlun félagsins. 

Reiknað sé með því að flugvélinni verði flogið frá flugvellinum laust fyrir klukkan 14 og það sé eina ferðin á áætlun til eða frá Íberíuskaganum í dag. Hann segir þó að félagið muni fylgast með stöðunni.

Hlutir geti breyst

Flugfélagið Play er með þrjár flugferðir á áætlun á Íberíuskaga í dag, til Barselóna og Madrídar á Spáni og Lissabon í Portúgal nú síðdegis og gert er ráð fyrir að flugvélunum verði lent aftur á Keflavíkurflugvelli laust upp úr klukkan 01 í nótt.

Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi hjá Play, segir í samtali við Vísi að eins og er sé allt flug á áætlun. Hann segir þó að rafmagnsleysi geti haft áhrif á áætlanir flugfélaga og hvetur því farþega til þess að fylgjast vel með tilkynningum frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×