Sport

Fara fram á tveggja og hálfs árs fangelsi yfir Ingebrigtsen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gjert Ingebrigtsen bíður nú örlaga sinna.
Gjert Ingebrigtsen bíður nú örlaga sinna. EPA-EFE/VIDAR RUUD

Saksóknarar í máli norska hlaupaþjálfarans Gjerts Ingebrigtsen fara fram á tveggja og hálfs árs fangelsi yfir honum fyrir illa meðferð á börnum hans tveimur, Jakob og Ingrid.

Saksóknarar í málinu, Angjerd Kvernenes og Ellen Gimre, tóku til máls fyrir rétti í gær og fóru yfir vitnisburð síðustu vikna, meðal annars Jakobs en Gjert er sakaður um að hafa beitt hann ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. VG segir frá.

„Jakob hefur talað um ótta og óvissu og hvernig ítrekuð högg í höfuðið þegar hann var sjö og hálfs árs höfðu áhrif á æsku hans. Á því liggur enginn vafi að ógnarástand ríkti á heimilinu allt frá ársbyrjun 2008 þegar Jakob var sjö ára og systir hans eins og hálfs árs,“ sagði Kverneses.

„Þetta var uppeldi sem einkenndist af óvissu, var strangt og þau upplifðu stjórnsemi. Það hefur skilað sér í streituvaldandi daglegu lífi sem einkennist af óvissu,“ bætti Kverneses við.

Samanlagt fara saksóknarar fram á tveggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Gjert auk þess að hann greiði sakarkostnað. Hann hafnar sök.

Gimre segir útskýringar Gjert ekki trúverðugar og segir afar ólíklegt að öll vitnin hafi misskilið hegðun hans. Þá segir hún ekkert til í því að fjárhagslegur hvati hafi legið að baki ásökunum á hendur Gjert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×