Innlent

Ráðist með hníf að ung­menni í Hafnar­firði

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hvar árásin átti sér stað í Hafnarfirði en málið er unnið með barnavernd og foreldrum.
Ekki liggur fyrir hvar árásin átti sér stað í Hafnarfirði en málið er unnið með barnavernd og foreldrum. Vísir/Vilhelm

Þrír einstaklingar réðust á ungmenni í Hafnarfirði í gærkvöldi eða nótt. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ungmennið hafi verið ógnað með hníf og orðið fyrir höggum og spörkum. Í tilkynningu segir að málið sé unnið með barnavernd og foreldrum.

Tveir menn voru svo handteknir í Langholts/Vogahverfi í Reykjavík eftir að hafa hótað manni með hníf og haft af honum fjármuni. Í dagbók segir að mennirnir hafi í kjölfarið verið vistaðir í fangaklefa.

Þá var eitthvað um ölvun í gærkvöldi og nótt og tengdist það nokkrum útköllum lögreglunnar. Ölvaður ökumaður var stöðvaður í Hlíðum/Laugardal í Reykjavík og var sviptur ökuréttindum. Þá var ökumaður stöðvaður í Grafarholti vegna gruns um að vera undir áhrifum vímuefna og einn sem missti stjórn á rafmagnshlaupahjóli í Breiðholti með þeim afleiðingum að hann féll. Hann var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans. Þá kemur fram í dagbók að leigubílstjóri hafi kallað út lögreglu vegna ofurölvi farþega í Vesturbæ Reykjavíkur. Maðurinn var vakinn og gekk síðasta spölinn heim samkvæmt dagbókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×