Innlent

And­lát í Garða­bæ: Úr­skurðuð í gæslu­varð­hald um­fram há­marks­lengd

Árni Sæberg skrifar
Faðir konunnar lést á heimili þeirra í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Faðir konunnar lést á heimili þeirra í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Gæsluvarðhald yfir konu, sem grunuð er um að hafa ráðið föður sínum bana á heimili þeirra í Garðabæ, hefur verið framlengt um fjórar vikur, eða til 29. júlí. Þá mun hún hafa sætt varðhaldi í fimmtán vikur en hámarkstími gæsluvarðhalds er tólf vikur, nema mál hafi verið höfðað gegn sakborningi eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þann 7. maí var tilkynnt að konan sætti varðhaldi á grundvelli almannahagsmuna og það hefur hún gert þangað til í dag. 

Þá var greint frá því á dögunum að rannsókn málsins væri lokið.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist í samtali við Vísi hvorki geta greint frá því hvað veldur því að konan er nú í varðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna á ný né hvers vegna hún hafi verið úrskurðuð í lengra varðhald en tólf vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×