Innlent

Á­kvörðun dóms­málaráðherra gríðar­leg von­brigði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir er stofnandi Trés lífsins.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir er stofnandi Trés lífsins. Vísir/Sigurjón

Stofnandi sjálfseignarstofnunar sem fær ekki að starfsrækja bálstofu segir ákvörðun dómsmálaráðherra vera vonbrigði. Stefnt er á að ný líkbrennsla Kirkjugarðanna verði tekin í gagnið á næsta ári.

Einu bálstofu landsins má finna í Fossvogi. Ofnarnir voru byggðir árið 1948 og eru þeir elstu á Norðurlöndunum sem eru enn starfræktir. Á næsta ári er stefnt á að hætta notkun þeirra og nýr ofn tekinn í notkun í Gufunesi. Viljayfirlýsing milli ríkis og Kirkjugarða Reykjavíkur um fjárframlag til uppbyggingar brennslunnar var undirrituð á föstudag en líkbrennslan í Fossvogi stenst ekki nútímakröfur um mengunarvarnir.

Íbúar í hverfinu hafa lengi kvartað yfir menguninni. Þá er starfræktur leikskóli við hliðina á bálstofunni. Nýi ofninn í Gufunesi mun hins vegar ekkert menga frá sér að sögn Ingvars Stefánssonar, framkvæmdastjóra kirkjugarða Reykjavíkur. Áhersla verður lögð á að flýta framkvæmdum svo ný bálstofa verði tilbúin sem fyrst og verður hún gjaldfrjáls og opin öllum óháð trú- og lífsskoðunum.

Undirritunin átti sér langan aðdraganda og hafði sjálfseignarstofnunin Tré lífsins lengi barist fyrir því að fá að taka við rekstrinum. Það kom Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur, stofnanda Trés lífsins, á óvart að frekar var ákveðið að halda honum hjá Kirkjugörðunum.

„Ég verð að viðurkenna það að fyrir okkur voru þetta gríðarleg vonbrigði. Þetta kom okkur virkilega á óvart. Þetta er ekki sú niðurstaða sem við héldum að yrði á málinu. Að okkar mati hafi samfélagslegri nýsköpun, frelsi og fjölbreytileika verið hafnað á kostnað einhvers annars,“ segir Sigríður Bylgja. 

Tré lífsins hafi verið í samskiptum við ríkið svo árum skiptir. Þrátt fyrir ákvörðunina heldur Sigríður Bylgja í vonina.

„Við undrumst þessa ákvörðun og veltum því fyrir okkar hvort samstaða sé um hana meðal ríkisstjórnaflokkanna. Og það sem þau vilja standa fyrir. Við í rauninni vonum til þess að hægt verði að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar, því við erum enn til í að taka við þessu hlutverki og gera það í góðu samstarfi við öll,“ segir Sigríður Bylgja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×