Enski boltinn

Skipu­leggja Ratcliffe mót­mæli á leik Manchester United og Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe tekur í höndina á Harry Maguire eftir tap Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
Sir Jim Ratcliffe tekur í höndina á Harry Maguire eftir tap Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Getty/James Gill

Stuðningsmannahópur Manchester United ætlar að skipuleggja eigendamótmæli á fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

Þetta verða tímamótamótmæli. Stuðningsmannahópar félagsins hafa lengi mótmælt Glazer fjölskyldunni sem hefur átt félagið frá 2005 en þetta verða fyrstu mótmælin síðan að Sir Jim Ratcliffe bættist í eigendahópinn.

Stuðningsmannahópurinn The 1958 hefur margoft krafist þess að Glazer fjölskyldan selji hlut sinn í félaginu.

Nú ætla þeir að þramma í kröfugöngu til Old Trafford 17. ágúst næstkomandi þegar Manchester United tekur á móti Arsenal í fyrstu umferðinni.

Ratcliffe á nú 28,94 prósent hlut í United en rekstur félagsins hefur verið á hans herðum síðan í febrúar 2024.

Aðhaldsaðgerðir Ratcliffe hafa verið allt annað en vinsælar. Hann hefur sagt upp fjölda starfsmanna félagsins og skorið niður á mörgum stöðum.

Á sama tíma gengur reksturinn áfram illa hjá félaginu, leikmenn hafa verið keyptir á risaupphæðir en margir þeirra skilað litlu til félagsins þrátt fyrir að vera á ofurlaunum.

„Nýtt tímabil er að byrja en við glímum áfram við sömu vandræðin með eigendurna. Tuttugu ár af Glazer fjölskyldunni og skuldafjalli þeirra er tuttugu árum of mikið. Nú er bara nóg komið,“ sagði í yfirlýsingu frá Stuðningsmannahópnum The 1958.

„Við leyfum ekki tímabundni bjartsýni og nokkrum skínandi nýjum hlutum til að fá okkur til að hætta að horfa á stóru myndina,“ segir í tilkynningunni.

„Jim Ratcliffe ákvað að leggjast með Glazer fjölskyldunni og er að okkar mati að hjálpa þeim við að halda völdum hjá félaginu. Stuðningsmenn Man United munu því mótmæla Glazer fjölskyldunni og Sir Jim Ratcliffe í fyrsta leik. Sá maður var einu sinni álitinn vera bjargvættur félagsins, af okkur líka, langþráður vonargeisli, en er nú orðinn samsekur að eyðileggingu á öllu því sem gerir okkar félag að því sem það á að vera,“ sagði í yfirlýsingu stuðningsmannahópsins The 1958.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×