Erlent

Geisla­sverð Darths Vader til sölu

Samúel Karl Ólason skrifar
Geislasverð Darths Vader er í raun handfang ljósakubbs sem breytt var fyrir Star Wars. Það gæti nú selst á allt að 370 milljónir króna. Gjöf en ekki gjald.
Geislasverð Darths Vader er í raun handfang ljósakubbs sem breytt var fyrir Star Wars. Það gæti nú selst á allt að 370 milljónir króna. Gjöf en ekki gjald. AP/Joanna Chan

Geislaverðið sem Darth Vader notaði til að skera aðra höndina af Luke Skywalker, eða Logi Geimgengill, í Star Wars myndinni Empire Strikes Back fer á uppboð í næsta mánuði. Áætlað er að leikmunurinn muni seljast fyrir allt að þrjár milljónir dala, sem samsvarar um 370 milljónum króna.

Sverðið var einnig notað í Return of the Jedi en til voru tvær útgáfur af því. Önnur var fest við belti leikarans Davids Prowse og áhættuleikarans Bobs Anderson. Hin var svo búin blaði úr timbri og notuð í bardagaatriði.

Það er seinni útgáfan sem fer á uppboð í Los Angeles í næsta mánuði, en blaðið vantar.

AFP fréttaveitan segir að sverðinu hafi veri lýst sem „heilögum kaleik“ aðdáenda Star Wars og að margir þeirra væru tilbúnir til að fórna hendinni eins og Logi til að eignast það.

Í samtali við fréttaveituna segir uppboðshaldarinn, stofnandi fyrirtækisins Propstore, að bandarískur einstaklingur hafi átt sverðið. Viðkomandi hafi svo gúgglað „hvernig sel ég leikmun úr Star Wars“ og endað hjá fyrirtækinu Propstore.

„Hann kom til okkar og sagði: „Mig langar að selja þetta“ og við fengum áfall,“ segir Stephen Lane. Hann segir engan hafa vitað að leikmunurinn væri til.

Sérfræðingar sönnuðu að sverðið væri það sem notað var í myndunum með því að bera rispur á og beyglur á því við myndefni frá tökum myndanna.

Á sama uppboði verður hægt að kaupa svipu sem Harrison Ford notaði við tökur Indiana Jones and the last crusade og minnisleysistæki sem notað var í Men in Black.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×