Fótbolti

Mikael Neville ó­sáttur við liðið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson var allt annað en ánægður með sitt lið.
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson var allt annað en ánægður með sitt lið. Getty/Catherine Ivill

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson og félagar hans í Djurgården komust í gær áfram í sænska bikarnum eftir sigur á neðri deildarliði.

Djurgården vann þá sigur á Järfälla sem er í sænsku D-deildinni.

Mikael kom Djurgården 2-1 yfir úr vítaspyrnu en sænska úrvalsdeildarfélagið vann leikinn á endanum 4-1.

Mikael var tekinn í viðtal eftir leikinn og var allt annað en sáttur með spilamennskuna.

„Það var gott að ná því að skora mitt fyrsta mark fyrir félagið en sem lið þá getum við ekki verið ánægðir með þessa frammistöðu. Ef ég segi alveg eins og er þá var hún mjög, mjög slök,“ sagði Mikael.

„Við vorum mjög heppnir í dag því við fengið tvær vítaspyrnur en frammistaða liðsins án og með boltann var ekki ásættanleg,“ sagði Mikael.

„Ég vil líka hrósa mótherjum okkar sem stóðu sig mjög vel og gerðu allt sem þeir gátu en við sem lið þurfum að gera betur,“ sagði Mikael.

„Þeir gáfu allt í þennan leik, í stærsta leik sínum á ævinni. Við þurfum að minnsta kosti að mæta með orkuna og ákefðina í leik sem þennan. Við vorum mjög góðir fyrstu tuttugu mínútur leiksins en svo duttum við niður og þetta varð að mjög jöfnum leik,“ sagði Mikael.

Það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×