Innlent

Mann­leg mis­tök leiddu til birtingar draga í stað loka­út­gáfu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Enn hefur ekki náðst sátt um frágang vöruskemmunnar við Álfabakka 2a.
Enn hefur ekki náðst sátt um frágang vöruskemmunnar við Álfabakka 2a. Vísir/Vilhelm

Mannleg mistök leiddu til þess að drög umsagnar skipulagsfulltrúa um framkvæmdir við Álfabakka 2a voru hengd við dagskrárlið 23 afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa í skjalakerfi Reykjavíkurborgar, í stað endanlegrar útgáfu umsagnarinnar.

Þetta kemur fram í svörum lögmanns Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður óskaði upplýsinga eftir fréttaflutning af því að fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dagsett 15. maí síðastliðinn, þar sem meðal annars var fjallað um „græna gímaldið“ svokallaða, hefði verið tekin út af vef borgarinnar og síðan endurbirt. 

Í millitíðinni hefði umsögn skipulagsfulltrúa sem fylgdi fundargerðinni verið breytt. Fyrri umsögnin hefði verið dagsett 15. mars en sú síðari 15. maí.

Umboðsmaður óskaði útskýringa á þessu og einnig svara um það hvort þetta tíðkaðist hjá Reykjavíkurborg, að fundargerðum væri breytt eftir á.

Fréttastofa óskaði eftir afriti af svörum borgarinnar við fyrirspurn Umboðsmanns og þar segir að um mistök hafi verið að ræða, þegar drög að umsögn skipulagsfulltrúa dagsett 15. mars hefðu verið birt í stað endanlegrar útgáfu, sem var í vinnslu fram að fundardeginum, 15. maí.

Endanlega útgáfan, sú sem var dagsett 15. maí, hafi sannarlega verið sú sem samþykkt var á umræddum fundi.

Þar sem um mistök var að ræða er því ekki svarað hvort það tíðkist hjá Reykjavíkurborg að breyta fundargerðum eftir á, né dæmi nefnd um slíkar breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×