Innlent

Segist hafa flækst í um­fangs­mikið fíkni­efna­mál fyrir hreina til­viljun

Árni Sæberg skrifar
Málið varðar innflutninga á tæplega þremur kílóum af kókaíni. Á þessari mynd úr safni má sjá eitt kíló af kókaíni.
Málið varðar innflutninga á tæplega þremur kílóum af kókaíni. Á þessari mynd úr safni má sjá eitt kíló af kókaíni. Vísir/Vilhelm

Fertugur Spánverji, sem sætir ákæru fyrir tilraun til fíkniefnalagabrots, segist hafa verið rangur maður á röngum stað þegar lögregla handtók hann. Maður sem hann tók á móti í Airbnb-íbúð í Fossvogi hefur þegar hlotið þungan dóm fyrir fíkniefnainnflutning. Sá segir allt aðra sögu af málinu.

Aðalmeðferð í máli á hendur manninum fer fram í dag en hinn maðurinn hlaut dóm um miðjan júlí eftir að hafa játað brot sín skýlaust.

Sá kom með 2.897,61 grömm af kókaíni í ferðatösku með flugi til Keflavíkurflugvallar og afhenti þau síðar öðrum manni sem einnig var ákærður fyrir brotið. Kókaínið var af 82 til 85 prósenta styrkleika og ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Upphaflega var hann ákærður fyrir að hafa framið brotið í félagi við Spánverjann en eftir að hann neitaði því var fallið frá þeim hluta ákærunnar. Spánverjinn var sömuleiðis upphaflega ákærður fyrir að hafa staðið að innflutningnum í félagi við manninn en fallið var frá þeim hluta og hann ákærður fyrir tilraun til fíkniefnalagabrots, með því að hafa reynt að taka við fíkniefnunum og varsla þau. 

Engin fíkniefni var þó að finna í fórum hans enda hafði lögregla skipt þeim út fyrir gerviefni eftir að hafa fundið þau.

Hafi fengið að gista í nokkra daga

Spánverjinn kom fyrir dóm í morgun en hann neitar alfarið sök í málinu. Hann lýsti aðkomu sinni að málinu sem svo að hann hefði kynnst manni að nafni Jónatan á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Sá hefði boðið honum gistingu í Airbnb-íbúð þar sem hann hefði ekki efni á því að vera lengur á hóteli og stefndi að því að fara heim til Spánar innan nokkurra daga. Þangað til hefði hann ætlað að sofa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Hann hefði dvalið í íbúðinni um nokkurra daga skeið þegar Jónatan hefði sagt honum að maður væri á leiðinni. Hann ætti að taka á móti manninnum og afhenda honum lykla að íbúðinni. 

Koman dróst um nokkrar klukkustundir

Hann sagði að koma mannsins sem hann átti að taka á móti hefði dregist um nokkrar klukkustundir og hann því farið í göngutúr út í búð. Þegar hann kom aftur hefði maðurinn verið mættur og hann hleypt honum inn í íbúðina.

Þegar inn var komið hefði hann boðið manninum mat og drykk og maðurinn þegið bjór. Maðurinn hefði þá farið út og næsta sem hann vissi hefði lögreglan verið komin inn í íbúðina og honum skellt í járn. 

„Ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét, þetta voru tvær mínútur.“

Fyrir dómi var hann margsaga um það hvað maðurinn hefði farið að gera þegar hann fór út, hvort hann hefði farið að reykja eða farið út í búð.

Í dómsvætti lögreglumanns kom fram skýring á því að koma mannsins dróst. Hann hefði verið gripinn við komuna til landsins og efnunum skipt út fyrir gerviefni og hann yfirheyrður. Hann hefði leitt lögreglu að íbúðinni þar sem afhending efnanna átti að fara fram.

Fann staðsetningarbúnað

Maðurinn var spurður um aðstæður á vettvangi og meðal annars hvar ferðataska aðkomumannsins hefði verið, hvort hann hefði opnað hana og þar fram eftir götunum. Hann sagði töskuna hafa verið á gólfinu inni í svefnherbergi íbúðarinnar en hann hefði ekki komið nálægt henni.

Þá var hann spurður út í hlut sem hann var með í vasanum þegar hann var handtekinn. Hluturinn var staðsetningarbúnaður sem lögregla hafði komið fyrir ferðatöskunni. Lögreglumaðurinn sagði búnaðinn á stærð við farsíma en aðeins þykkari.

Maðurinn kvaðst hafa fundið tækið á rúmi í svefnherberginu við hlið bakpoka aðkomumannsins. Hann hefði ætlað að spyrja manninn að því hvað hluturinn væri og því farið á eftir honum út úr íbúðinni með hlutinn í hönd. Þá hefði hann mætt lögreglumönnum fyrir utan.

Spurður að því hvers vegna hann hefði ekki minnst á staðsetningarbúnaðinn fyrr sagði hann að hann hefði gleymt því, enda hefði hann ekki talið nauðsynlegt að segja frá því. Hann hefði einfaldlega verið forvitinn um það hvað hluturinn væri.

Lögregla hafi opnað símann með andlitsgreiningu

Þá sagði hann að lögreglumenn hefðu handjárnað hann og tekið síma hans af honum. Því næst hefði einn lögreglumannanna opnað símann með því að bera símann upp að andliti hans og þannig aflæsa honum með andlitsgreiningu. Hann sagðist hefðu verið með símann í láni hjá áðurnefndum Jónatani. Hann væri nú með annan síma í láni hjá honum þar sem sá fyrri væri í haldi lögreglu.

Hann sagði að hann hefði ekki haft neitt að fela í símanum og því hefði hann veitt lögreglu frekari aðgang að honum, ef hann hefði bara vitað aðgangsorðið að honum. Í málinu liggja ekki fyrir fjarskiptagögn milli mannanna tveggja.

Sex barna faðir

Saksóknari bað manninn að lýsa högum sínum, líkt og venjan er í málum af þessu tagi. Hann kvaðst vera fjölskyldumaður í stöðugri vinnu á Spáni. Hann ætti sex börn, fimm drengi og eina stúlku.

Hann hefði komið hingað til lands frá Kanada í febrúar síðastliðnum og hefði átt bókað flug aftur heim til Spánar daginn eftir að hann var handtekinn. Bróðir hans hefði bókað fyrir hann flug til Bilbao með millilendingu í Frankfurt þann 24. maí síðastliðinn.

Það olli svolitlum ruglingi í dómsal, enda voru mennirnir tveir handteknir þann 22. apríl síðastliðinn. Maðurinn sagðist þá hafa ruglast og virtist bera fyrir sig að hann hefði verið í gæsluvarðhaldi frá handtöku. Hann breytti framburði sínum og sagðist hafa átt flug bókað þann 23. apríl.

Aðstoðaði lögreglu og nýtur nafnleyndar

Þegar greint var frá dóminum sem sá sem flutti efnin til landsins hlaut vakti nokkra athygli að nafn hans, þjóðerni og aldur komu ekki fram í dómnum sem birtur var á vef héraðsdómstólanna. Það er harla óvanalegt að dæmdir menn í fíkniefnamálum njóti nafnleyndar í dómum, enda er meginreglan sú að dómþing skuli háð í heyrandi hljóði og nöfn sakborninga því opinber.

Ástæðan fyrir nafnleyndinni er sú að maðurinn játaði brot sitt skýlaust frá upphafi og aðstoðaði lögreglu við rannsókn málsins. Því þótti rétt að nafn hans yrði ekki gert opinbert. Áður en hann gaf vitnisburð í dag ítrekaði dómari við blaðamann að nafn hans skyldi ekki birt.

Hélt að hann væri að flytja inn örfá grömm

Maðurinn sagðist hafa fengið pakka með efnunum afhentan í Portúgal og talið að um væri að ræða sjö til átta grömm af kókaíni, ekki tæplega þrjú kíló líkt og raunin var. Upphaflega hefði verið rætt um að hann fengi um fimm þúsund evrur greiddar fyrir ómakið en það hefði breyst á síðari stigum. Þóknun hefði átt að ákvarðast eftir að efnin höfðu verið skoðuð hér á landi.

Hann hefði flogið hingað frá Portúgal og upphaflega átt að fara á hótel. Það hefði dottið upp fyrir og á leið til Reykjavíkur hefði honum verið tjáð að hann ætti að fara í íbúðina í Fossvogi, afhenda efnin og dvelja svo þar í viku.

Hann hefði farið inn í íbúðina eftir að hafa rætt við þann sem lét hann hafa efnin. Þegar inn í íbúðina var komið hefði sá maður hringt í hinn manninn og hann afhent honum töskuna í kjölfarið. Hann hefði séð hann opna töskuna en þá farið út. Hann hafi ekki komist að því hvað var í töskunni fyrr en eftir að hann var kominn í fangelsi.

Loks sagði hann að maðurinn sem hann afhenti töskuna hefði ekki verið skipuleggjandi innflutningsins en hann hefði vitað hvað var í töskunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×