Handbolti

Sel­foss fagnaði fyrsta sigrinum gegn Fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Selfoss er fyrsta liðið til að leggja ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Fram að velli.
Selfoss er fyrsta liðið til að leggja ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Fram að velli.

Selfoss fagnaði fyrsta sigri tímabilsins og varð í leiðinni fyrsta liðið til að vinna ríkjandi meistara Fram, með 32-31 sigri í þriðju umferð Olís deildar karla í handbolta.

Selfoss leiddi leikinn lengst af og náði nokkrum sinnum fimm marka forystu en Fram átti eftir að stríða þeim á lokamínútunum.

Ríkjandi Íslands- og bikarmeistararnir búa yfir öflugu liði sem tók yfir og jafnaði leikinn 27-27 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Spennan var því magnþrungin á Selfossi þegar lokamínúturnar gengu í garð. Gestirnir náðu forystunni 30-31 og virtust ætla að vinna magnaðan endurkomusigur en þá skelltu heimamenn í lás og héldu markinu hreinu síðustu tvær mínúturnar.

Tryggvi Sigurberg jafnaði leikinn þegar rúm mínúta var eftir og línumaðurinn Gunnar Kári skoraði sigurmarkið þegar örfáar sekúndur voru eftir. Philipp Seidemann varði svo lokaskot leiksins frá Dánjal Ragnarssyni, þvílík byrjun hjá Þjóðverjanum sem skrifaði undir samning við Selfoss í gær.

Selfoss hefur nú unnið einn leik, gert jafntefli við ÍR og tapað gegn KA. Fram vann fyrstu tvo leiki tímabilsins, gegn FH og Þór, en tókst ekki að jafna sigurfjölda Aftureldingar sem er með fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×