Erlent

Undir­rituðu sam­komu­lag um fá­gæta málma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump óskaði Takaichi til hamingju með að verða fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Japan. Þá sagðist hann myndu gera allt fyrir Japan.
Trump óskaði Takaichi til hamingju með að verða fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Japan. Þá sagðist hann myndu gera allt fyrir Japan. Getty/Andrew Harnik

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sanae Takaichi, forsætisráðherra Japan, hafa undirritað samkomulag um fágæta málma og önnur steinefni.

Trump og Takaichi funduðu í morgun en fyrir fundinn sagðist síðarnefnda vilja stuðla að „gullöld“ í samskiptum Japan og Bandaríkjanna, til að efla ríkin og auka velsæld. 

Þess má geta að Trump hefur sjálfur ítrekað talað um „gullöld“ í Bandaríkjunum eftir að hann tók aftur við forsetaembættinu.

Ofangreint samkomulag er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að stjórnvöld í Kína hafa þrengt reglur um útflutning fágætra málma. Kínverjar og Bandaríkjamenn hafa skipst á skotum í tollastríði síðustu misseri.

Trump mun funda með Xi Jinping, forseta Kína, í Suður-Kóreu seinna í vikunni.

Takaichi þakkaði Trump í morgun fyrir framlag sitt í þágu friðar á Gasa og á milli Taílands og Kambódíu. Bæði minntust Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japan, sem ráðinn var af dögum árið 2022.

Trump sagði Abe hafa verið „góðan vin“.

Efst á dagskránni í dag eru viðræður um viðskipti og öryggismál en Japanir hafa heitið því að auka innflutning á vörum frá Bandaríkjunum gegn lækkun tolla á japanskar vörur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×