Innlent

Ekið á gangandi veg­faranda á Sæ­braut

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hefur málið til skoðunar.
Lögregla hefur málið til skoðunar. vísir/Vilhelm

Betur fór en á horfðist þegar ekið var á gangandi vegfaranda á umferðarljósum á gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogar rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að við fyrstu sýn virðist sem ekki hafi orðið stórvægileg meiðsli á vegfarandanum. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver var á grænu ljósi þegar áreksturinn varð.

Nýleg banaslys í umferðinni á Suðurlandsbraut og Vesturlandsvegi eru fólki ofarlega í huga. Unnar Már hvetur ökumenn til að hafa vökul augu í umferðinni og fylgjast vel með. Dimmasti tími ársins gengur nú yfir og oft erfitt að sjá fólk.

Mikilvægt sé að allir hjálpist að til að minnka líkur á slysum. Í því samhengi hvetur Unnar gangandi, hjólandi og fólk á hlaupahjólum til að nota ljós og endurskinsmerki.



Tengdar fréttir

Konan sem ekið var á er látin

Kona um áttrætt er látin eftir alvarlegt umferðarslys sem varð á Suðurlandsbraut í Reykjavík, á móts við Hilton Reykjavik Nordica á mánudag. Konan var fótgangandi á leið yfir götuna, á gangbraut, þegar hún varð fyrir bíl, sem var ekið vestur Suðurlandsbraut. Konan var flutt á Landspítalann en lést þar í gær.

Ungur karlmaður lést í slysinu á Vesturlandsvegi

Karlmaður um þrítugt lést í árekstri jepplings og flutningabíls á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, sunnan Leirvogsár á móts við Bugðufljót, síðdegis í gær. Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×