Innlent

Höfðu haldið til í ruslageymslunni dagana á undan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregluþjónar mættir á svæðið.
Lögregluþjónar mættir á svæðið. Vísir

Tveir karlmenn sem handteknir voru í ruslageymslum í fjölbýlishúsi í Túnunum í Reykjavík aðfaranótt þriðjudags eru góðkunningjar lögreglu. Íbúi í húsinu fann reykjarlykt og áttaði sig í framhaldinu á því að líklega væri um óvelkomna gesti í ruslageymslunni að ræða.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir um góðkunningja lögreglunnar að ræða sem hafi kveikt sér eld í ruslageymslunni til að halda á sér hita.

„Reykurinn barst upp um allar hæðir og olli íbúum óþægindum,“ segir Unnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fann íbúi í húsinu reykjarlykt í íbúð sinni, opnaði fram á gang og við blasti smá reykjarmistur. Eftir að hafa bankað upp á hjá nágranna án þess að átta sig á orsök reyksins kveiktu íbúarnir á herramönnum sem höfðu gert sig heimakomna í ruslageymslunni dagana á undan.

Hringt var á lögreglu sem bar að garði fljótlega. Mennirnir voru ekki alveg á þeim buxunum að yfirgefa svæðið svo óskað var eftir liðsauka. Unnar Már segir mennina hafa gist fangageymslur þá nóttina og tekin skýrslutaka af þeim þegar liðið var á næsta dag og ástand þeirra skárra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×