Erlent

Fóru um borð í vélvana rúss­neskt skip

Samúel Karl Ólason skrifar
Skipið Adler er meðal annars talið hafa verið notað til að flytja hergögn frá Norður-Kóreu til Rússlands.
Skipið Adler er meðal annars talið hafa verið notað til að flytja hergögn frá Norður-Kóreu til Rússlands. EPA/JOHAN NILSSON

Sænskir löggæslumenn fóru í nótt um borð í rússneska skipið Adler. Það var gert í kjölfar þess að áhöfn skipsins varpaði ankerum undan ströndum Hauganes á Skáni í gær, vegna vélarbilunar. Rússar eru taldir nota skipið til flytja vopn, í trássi við refsiaðgerðir gegn ríkinu.

Aðgerðin var leidd af sænsku tollgæslunni en samkvæmt frétt SVT nutu starfsmenn hennar aðstoðar manna frá Strandgæslu Svíþjóðar og öðrum öryggisstofnunum. Lögreglan hefur einnig komð að málinu.

Enn var verið að leita í skipinu en sænska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni tollgæslunnar að áhöfnin hafi sýnt samvinnu. Ekki hefur verið gefið upp hvort eitthvað sem þykir merkilegt hafi fundist um borð.

Adler er í eigu fyrirtækisins sem kallast M Leasing LlC. Það hefur verið beitt refsiaðgerðum af bæði Bandaríkjunum og Evrópusambandinu sökum þess að skipið ku vera notað til að flytja hergögn frá Norður-Kóreu sem Rússar nota í Úkraínu.

Skipinu var siglt úr höfn í Pétursborg þann 15. desember en hvert förinni var heitið liggur ekki fyrir, samkvæmt frétt Reuters.

Sambærileg áhlaup hafa verið gerð víða á hafsvæði Evrópusambandsins á undanförnum mánuðum. Í mörgum tilfellum hafa þessar aðgerðir beinst að hinum svokallaða „skuggaflota“ Rússa. Það eru skip sem Rússar nota til að komast í kringum refsiaðgerðir og viðskiptatakmarkanir og hafa mörg þeirra verið beitt refsiaðgerðum.

Skipin eru einnig talin í einhverjum tilfellum hafa verið notuð við framkvæmd fjölþáttaógna í Evrópu.


Tengdar fréttir

Réðust á skip úr skuggaflotanum þúsundir kílómetra frá Úkraínu

Ekki var notast við langdræga sjálfsprengidróna við árásina. Þess í stað var notast við skammdrægri dróna sem notaðir eru til að varpa sprengjum úr lofti. Bendir það til þess að drónunum hafi verið flogið frá öðru skipi eða landi sem verið var að sigla olíuskipinu framhjá.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Óvinafögnuður Trumps og Pútíns

Viðræður um frið í Úkraínu virðast enn engum árangri ætla að skila, nema kannski fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Samband Bandaríkjanna og Evrópu hefur beðið mikla hnekki á undanförnum vikum og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sífellt líklegri til að þvo hendur sínar alfarið af stríðinu í Úkraínu.

Úkraínu­menn skutu á olíu­skip Rússa í Svarta­hafi

Úkraínska leyniþjónustan hefur birt myndir og myndskeið sem sýna árásir sjávardróna á tvö olíuflutningaskip í Svartahafi. Skipin eru talin hafa verið hluti af hinum svokallaða skuggaflota Rússa, en talið var að skipin væru að flytja rússneska olíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×