Skoðun

Verður Hval­fjörður gerður að einni stærstu rot­þró landsins?

Haraldur Eiríksson skrifar

Í Skipulagsgátt stjórnvalda liggur nú til umsagnar umhverfismatsskýrsla vegna fyrirhugaðs 28.000 tonna svokallaðs landeldis Aurora fiskeldis í Hvalfirði. Um er að ræða aðila sem hafa verið áberandi í sjókvíaeldi hér á landi, með fjármagn og rekstrarlíkan sem að stórum hluta á rætur að rekja til Noregs. Greinarritari sat kynningarfund fyrirtækisins 17. desember síðastliðinn. Eftir fundinn sat hann einfaldlega eftir orðlaus.

Mengun á pari við Reykjavíkurborg

Til að setja stærðargráðuna í samhengi þá er heildarframleiðsla lax í sjókvíum við Ísland um 50.000 tonn árið 2025. Fyrirhugað eldi í Hvalfirði nemur því rúmlega helmingi allrar núverandi framleiðslu laxeldis í sjókvíum hérlendis á þessu ári. Um er að ræða iðnaðarverksmiðju í matvælaiðnaði af stærðargráðu sem á sér enga hliðstæðu í nágrenni höfuðborgarinnar.

En stærðin birtist ekki aðeins í tonnum af fiski. Samkvæmt umhverfismatsskýrslu er úrgangsálag stöðvarinnar við fullan rekstur metið á meira en 150.000 persónueiningar (PE). Þetta þýðir einfaldlega að úrgangur stöðvarinnar slagar í allt skólpmagn Reykjavíkurborgar, sem telur um 140.000 íbúa. Hér er um að ræða einn iðnaðarpunkt, staðsettan við Hvalfjörð, einn fallegasta en jafnframt viðkvæmasta fjörð landsins sem nú þegar er undir gríðarlegu álagi frá járnblendi og öðrum iðnaði í Hvalfjarðarsveit.

Hvað þýðir að þriðjungur úrgangsins fari í fjörðinn?

Samkvæmt eigin gögnum Aurora verða aðeins hreinsaðir um tveir þriðju hlutar þess úrgangs sem til fellur. Um þriðjungur losunarinnar fer beint í Hvalfjörð. Þetta eru ekki slys, bilun eða frávik, heldur hluti af hönnun framkvæmdarinnar.

Í raun þýðir þetta að skólpmagn á við stórt bæjarfélag, verður losað ár eftir ár beint í fjörðinn. Losunin er aðallega í formi uppleystra næringarefna, svo sem köfnunarefnis og fosfórs, og þar munu verða leifar sápu, sóttvarnarefna, maurasýru, svefnlyfja og annarra lífvirkra efna sem notuð eru við framleiðsluna, alls um 1000 tonn á ári. Slík losun getur verið meginorsök ofauðgunar sem getur leitt til, aukins þörungavaxtar, súrefnisskorts við botn, breytinga á botndýralífi, og keðjuverkandi áhrifa á vistkerfi fjarðarins.

Hvalfjörður er ekki opið haf, með sterka sjávarstrauma eða ótakmarkaða burðargetu. Hann er afmarkaður fjörður, að hluta friðaður, með viðkvæm vistkerfi og mikilvægt fuglalíf. Að leiða kerfisbundið í hann skólpmagni í þessum mæli er ekki í neinum takti við nútíma samfélag.

Friðunarsvæði frá norskum eldislaxi

Það sem vakti óneitanlega athygli í kynningu fyrirtækisins er að rekstrarforsendurnar eru meðal annars framleiðsla á laxi sem á að flytja til áframeldis í sjókvíar umhverfis Ísland. Vandséð er að þar með sé hægt að flokka umrædda risastöð Aurora sem hreina landeldisstöð með rekstur í lokuðum kerfum. Sjó á að taka úr Hvalfirði, dæla honum inn í stöðina og út í fjörðinn aftur. Hluta af laxinum á að dæla frá stöðinni í brunnbáta og þar með myndast sú mikla hætta á stroki sem slík framkvæmd hefur í för með sér. Á síðastliðnu ári eða svo hafa fimm tilvik verið tilkynnt til MAST frá landeldisstöðvum sem misst hafa frá sér eldisfiska hérlendis og samkvæmt skýrslu Eflu í skipulagsgátt er álitið að 7% af öllum strokulaxi í Noregi berist frá landeldisstöðvum.

Stór hluti landsins er friðaður fyrir eldi á norskum laxi, þar á meðal Faxaflói, vegna nálægðar við þau miklu verðmæti sem finna má í villtum laxa- og silungastofnum. Margar af bestu laxveiðiám veraldar eru á svæðinu frá Faxaflóa vestur á Snæfellsnes og með áformum Aurora er því freklega stigið inn á friðunarsvæði íslenskra laxa- og silungastofna með norskan lax. Ef slys verður við dælingu eða flutning laxa í Hvalfirði eða Faxaflóa má ætla að eldislax geti leitað upp í allar þær ár sem í dag eru á svæði sem á algjörlega að vera laust við norskan eldislax. Með þessu er verið að ógna verulega lögbundnum eignarrétti hundruða bújarða.

Hvergi í umhverfisskýrslunni er að finna neitt um þær aðstæður sem geta skapast í Faxaflóa og Hvalfirði þegar veður verða slæm á stórstreymi sjávar og hvaða áhrif slíkt hefur á tækjabúnað. Umrædd eldisstöð liggur lágt við sjávarmál og flóð eru ástæða þess að byggð lagðist af á afmörkuðum svæðum á Akranesi, í nágrenni fyrirhugaðrar staðsetningu Aurora.

Ótrúlegar umsagnir opinberra aðila í Skipulagsgátt stjórnvalda.

Það er engin nýlunda að umsagnarferli í viðkvæmu máli sem þessu sé skellt í Skipulagsgátt stjórnvalda yfir hátíðarnar, og í tilviki fiskeldis Aurora þá rennur umsagnarfrestur við umhverfisskýrsluna út þann 2. janúar næstkomandi. Þetta veldur umsagnaraðilum miklum óþægindum og spurning hvort stjórnvöld þurfi ekki að láta af þessum leiðinlega ávana.

Bæði Fiskistofa og MAST hafa þegar skilað inn umsögnum sínum vegna framkvæmdanna.Við lestur þeirra opinberast ótrúlegt skipulagsleysi og forkastanleg vinnubrögð þeirra sem í málaflokknum starfa og vandséð er að umræddar stofnanir hafi hreinlega kynnt sér áætlanirnar fyrirtækisins til fulls. Aurora segist sjálft í framlögðum gögnum vera meðvitað um hættuna á erfðablöndun frá sleppifiski, en þekkt er að mestar hættur á stroki og erfðablöndun eiga sér stað við dælingu og flutningi á laxi í brunnbátum utan lokaðra kerfa. Það vekur því óneitanlega athygli að hvorki Fiskistofa né MAST nefna þessa áhættu svo mikið sem einu orði í umsögnum sínum.

Í skriflegu erindi undirritaðs til Fiskistofu viðurkennir sá er umsögninni skilaði fyrir hönd stofnunarinnar að það sé í verkahring Fiskistofu að huga að þessum áhættuþætti.

Það kaus stofnunin hins vegar að gera ekki.

Áhrif á nærumhverfi

Samkvæmt umhverfisskýrslu fyrirtækisins mun verksmiðjan hafa nokkuð neikvæð sjónræn áhrif á landslag og nærumhverfi, nokkuð neikvæð áhrif á fuglalíf svæðisins og nokkuð neikvæð áhrif á vistgerðir og gróðurfar. Eldið mun verða ljósastýrt og því er ljósmengun mikil auk þess sem þungaflutningar bæði land- og sjóleiðis verða miklir. Skipaumferð um Hvalfjörð mun aukast til muna og stórir flutningabílar með tengivagna munu líklegast verða yfir 1000 talsins á ársgrundvelli - umferð sem væntanlega verður stýrt í gegnum Hvalfjörð og Hvalfjarðargöng. Samkvæmt fyrirtækinu mun þessi risaverksmiðja, þrátt fyrir umfangið, aðeins skapa um 30-40 bein störf. Ekkert tillit er tekið til þess að líkur eru á því að mjög neikvæð áhrif verði á annan iðnað í Hvalfirði, sbr. ferðaþjónustu. Til samanburðar eru núverandi stöðugildi í sjóböðunum í Hvammsvík í Kjós um 40 talsins, og stefnt að því að þau verði orðin 80 talsins innan tveggja ára. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa því neikvæð áhrif á flestan annan iðnað sem í firðinum er og fram kemur í gögnum fyrirtækisins að framkvæmdin muni valda beinu og varanlegu raski á fjöruvistgerðum svæðisins.

Matvælaframleiðsla við hlið stóriðju

Nýverið var fyrirtækinu Kornax synjað um leyfi fyrir vinnslu hveitis á Grundartanga vegna mengunarsjónarmiða, því starfsemi járnblendisins er flokkuð sem mengandi iðnaður sem ekki á samleið með matvælaframleiðslu. Sagan hefur sýnt að búpeningur, svo sem hestar, hafa drepist vegna flúormengunar í nágrenni Grundartanga. Það truflar ekki laxeldismennina, enda virðist þröskuldur mengunar vera mun hærri í þeim iðnaði en í öðrum atvinnugreinum. Að sögn forsvarsmanna Aurora eru þvert á móti samlegðaráhrif með járnblendinu, því meiningin er að nýta varma frá járnblendinu til að hita sjó úr Hvalfirði sem dæla á inn í meinta landeldisstöð. Upp er komin áhugaverð staða, og stóriðja mögulega farin að endurselja niðurgreiddan varma til matvælaframleiðanda. Sem sagt, norskir fjárfestar farnir að þiggja niðurgreidda íslenska orku frá fyrirtæki í kínverskri eigu.

Hvalfjörður er ekki í einkaeigu Hvalfjarðarsveitar

Enn á ný þurfa íbúar í Kjósarhreppi að horfa upp á nágranna sína handan fjarðarins vaða áfram með stóriðjuframkvæmdir. Hvalfjarðarsveit hefur þegar skilað umsögn inn í Skipulagsgátt og það þarf ekki að fjölyrða um innihald hennar. Sem fyrr er nágrönnum einfaldlega sendur fingurinn án samráðs eða samtals. Svo virðist sem að Hvalfjarðarsveit líti á strandsvæði Hvalfjarðar sem sitt einkamál, þó svo mengun og ekki síst sjónræn áhrif umsvifa á Grundartanga lendi hvað harðast á íbúum í Kjósarhreppi sem einnig eru eigendur strandlengjunnar og hafa markað sér græna stefnu. Það munar um minna að fá mengun líkt og ofan er getið í fangið. Fjörðurinn er sameiginleg auðlind og á sameiginlegri ábyrgð okkar allra.

Standast áætlanir fyrirtækisins lög?

Þann 16. desember síðastliðinn féll dómur í máli er höfðað var af Ólafi Þór Jónssyni og fleirum gegn Umhverfis- og orkustofnun og Benchmark Genetics Ísland hf. Málið varðar túlkun vatnatilskipunar ESB en fyrir liggur að Evrópudómstóllinn hefur áður túlkað tilskipunina svo að hún girði fyrir að leyfi til framkvæmda sem möguleg áhrif geti haft á ástand vatnshlots.

Því er ljóst að fullkomin réttaróvissa er um það hvort leyfilegt sé að spilla firðinum með þeim hætti sem Aurora fiskeldi áformar.

Mælirinn fullur

Ekki er langt um liðið frá því að fyrirtækið Röst kynnti áætlanir um að hella Vítissóda í Hvalfjörð með fulltingi Hvalfjarðarsveitar. Við það tækifæri benti sá er hér ritar á að fleiri myndu koma í kjölfarið og sú varð raunin. Í gögnum sem gefin hafa verið út er áætlunum eldisins gefinn verulegur afsláttur út frá mengun og umhverfisáhrifum vegna þess að Gundartangasvæðinu sé nú þegar búið að raska.

Aumari verður rökstuðningurinn ekki.

Höfundur er leigutaki Laxár í Kjós og Bugðu




Skoðun

Sjá meira


×