Skoðun

Þjónustukjarni eldri borgara – lykill að gæðasamfélaginu í Hvera­gerði

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Garðar Rúnar Árnason skrifa

Gæði samfélags mælast í því hvernig við þjónustum íbúana. Íbúasamsetning í Hveragerði er fjölbreytt og býr í bænum m.a. fjölmennur og virkur hópur eldra fólks. Það er eitt af megin áherslumálum Framsóknar að bjóða upp á fjölbreyttan búsetuvalkost fyrir alla hópa samfélagsins. Það er því mikilvægt að hlusta eftir því hvað hentar hverjum. Í Hveragerði er öflugt félagsstarf hjá Félagi eldri borgara. Félagið heldur úti fjölbreyttri starfsemi fyrir þau sem hafa náð 60 ára aldri. Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks og það gera þau með því að vekja athygli á þörfum eldri borgara. Þá er markmið um að stuðla að aukinni þjónustu og skipuleggja og framkvæma tómstunda- og félagsstarf meðal félaga. Samtal bæjaryfirvalda og FEB er gríðarlega mikilvægt og viljum við trúa því að afrakstur þeirrar samvinnu kristallist í undirbúningshópi sem nú hefur verið komið á.

Undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 9. október 2025 að stofnaður yrði undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði. Fram kom á þeim fundi að hópnum sé ætla að vinna að og skila skýrslu til bæjarstjórnar. Markmið skýrslunnar er að draga saman forsendur fyrir slíku verkefni. Einnig er hópnum ætlað að skila tillögum að ákjósanlegri staðsetningu og þarfagreiningu á hlutverki og mögulegri starfsemi þjónustukjarnans.

Hópurinn skipaður

Erindið var tekið fyrir á fundi Öldungaráðs Hveragerðisbæjar þann 11. desember 2025 og þar skipað í undirbúningshópinn. Samþykkt var að skipa í hópinn einn fulltrúa frá hverju stjórnmálaafli í Hveragerði og tvo fulltrúa frá FEB. Framsókn í Hveragerði: Garðar Rúnar Árnason, Okkar Hveragerði: Anna Jórunn Stefánsdóttir, Sjálfstæðisflokkur: Ásta Magnúsdóttir, Félag eldri borgara í Hveragerði: Kristinn G. Kristjánsson og Daði V. Ingimundarson. Að auki mun starfsmaður hópsins koma frá Hveragerðisbæ. Í undirbúningshópnum er því gert ráð fyrir samvinnu sveitarfélagsins, Öldungaráðs og Félags eldri borgara.

Aukin lífsgæði

Stofnun þessa stýrihóps markar spennandi skref í átt að aukinni þjónustu sem mætir þörfum eldri borgara. Með sameiginlegu átaki og góðri samvinnu er færi á að móta framtíðarsýn um uppbyggingu þjónustukjarna sem stuðlar að auknum lífsgæðum fyrir öll sem nýta þjónustuna. Þetta er fjárfesting í framtíð sem þjónar okkur öllum - hvort sem er í dag eða síðar á lífsleiðinni.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir er oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og Garðar Rúnar Árnsason er fulltrúi Framsóknar í öldungaráði Hveragerðisbæjar.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×