Handbolti

„Gætið ykkar á Óðni en ekki bara honum“

Sindri Sverrisson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson kann að raða inn mörkum eins og Svisslendingar vita manna best.
Óðinn Þór Ríkharðsson kann að raða inn mörkum eins og Svisslendingar vita manna best. vísir/Vilhelm

Lítið sem ekkert er af fréttum tengdum Evrópumótinu í handbolta í helstu miðlunum í Sviss, fyrir leik þjóðarinnar við Ísland á EM í dag. Ríkismiðillinn SRF varar þó sérstaklega við Óðni Þór Ríkharðssyni.

Leikurinn í dag, klukkan 14:30, er afar þýðingarmikill fyrir Íslendinga enda má ekkert út af bregða í baráttunni um að komast í undanúrslit.

Svisslendingar eru hins vegar enn að leita að sínum fyrsta sigri frá upphafi í milliriðli á EM og eiga ekki möguleika á að komast áfram í mótinu. Þeir náðu þó 29-29 jafntefli við Ungverjaland á föstudaginn og vilja byggja ofan á það, eftir 28-24 tap gegn Króötum á sunnudaginn.

Svisslendingar þekkja auðvitað sérstaklega vel til Óðins en hornamaðurinn knái er algjör lykilmaður í svissneska liðinu Kadetten Schaffhausen og hefur unnið fjölda titla með liðinu.

Óðinn getur skorað úr hvaða stöðu sem er

SRF ræddi við tvo liðsfélaga Óðins, þá Luka Maros og Lucas Meister, um komandi leik, í grein undir fyrirsögninni „Gætið ykkar á Óðni en ekki bara honum“.

„Það er hrikalega erfitt að verjast honum því hann getur skorað úr hvaða stöðu sem er,“ sagði Maros og bætti við að Óðinn væri duglegur að æfa aukalega og það hefði eflaust hjálpað honum. „En maður sá snemma hve sterkur hann er.“

Meister tók í sama streng en varaði við fleirum: „Aðaláherslan er á það hvernig við verjumst Gísla Kristjánssyni, Viggó Kristjánssyni og Ómari Inga Magnússyni.“

Veikur markvörður

Veikindi hafa truflað undirbúning Sviss fyrir leikinn því markvörðurinn Mathieu Seravalli varð að víkja og hefur þjálfarinn Andy Schmid kallað á Jannis Scheidiger inn í hans stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×