Handbolti

„Þrjár eða fjórar sekúndur sem eru krítískar á þessum tíma“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Þorgeir ræðst til atlögu.
Gísli Þorgeir ræðst til atlögu. vísir / vilhelm

Gísli Þorgeir Kristjánsson var gríðarlega svekktur með 38-38 jafntefli Íslands gegn Sviss. Hann hefði viljað sjá tímann stoppa fyrr í lokasókninni en segir það ekki skipta mestu máli, Ísland hefði átt að gera betur miklu fyrr.

„Við vorum með þetta í okkar höndum en nú er þetta ekki lengur í okkar höndum. Mjög leiðinlegt að þetta skyldi fara svona“ sagði Gísli eftir leik í viðtali við Val Pál Eiríksson.

Gísli var spurður út í lokasóknina, þegar svissneskur varnarmaður braut á honum en dómararnir voru lengi að stöðva tímann. Ísland hafði því aðeins tvær sekúndur til að taka lokaskotið.

„Þeir ná að lesa það sem við ætlum að gera. Síðan fannst mér þeir gleyma að stoppa tímann, það liðu þrjár eða fjórar sekúndur sem eru krítískar á þessum tíma, og svo fór þetta svona.“

Ísland fékk í heildina á sig 38 mörk, sem er sárt fyrir sóknarmann eins og Gísla að sjá.

„Það er allt, allt of mikið auðvitað. Segir sig sjálft. Við erum sjálfum okkur verstir, í því að búa ekki til sömu geðveiki og við náðum að knýja fram á móti Svíþjóð. Það er gríðarlega sárt að horfa á bæði Króataleikinn og leikinn í dag, þar sem við spilum klukkan hálf fjögur, fyrsti leikur og ekki margir í höllinni. Ekki sama stemning og þá þurfum við að búa hana til sjálfir, en við erum ekki að ná því. Náðum því ekki í dag. Vorum alltof linir. Þeir náðu að spila nákvæmlega eins og þeir vildu. Svo vorum við að drífa okkur alltof mikið, því við vorum alltaf að elta, sem er mjög vont. Það er alveg hægt að horfa á síðustu sóknina en við eigum að gera betur miklu fyrr.“

Klippa: Gísli Þorgeir sá sekúndur líða í lokasókninni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×