Handbolti

„Ætluðum ekki að láta þetta fara aftur úr okkar höndum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Þorgeir ræðst til atlögu, eins og hann mun gera í Herning í Danmörku á föstudag.
Gísli Þorgeir ræðst til atlögu, eins og hann mun gera í Herning í Danmörku á föstudag. vísir vilhelm

Gísli Þorgeir Kristjánsson var gríðarlega sáttur með sterkan sigur Íslands gegn Slóveníu og þakkar Ungverjum kærlega fyrir að gefa liðinu annan séns. Hann segir strákana okkar ekki ætla að missa örlögin úr eigin höndum aftur.

„Neikvæðnin var í hámarki, en við fengum annan séns og að skila síðan þessari frammistöðu sem við gerðum í dag er bara frábært“ sagði Gísli í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir sigurinn gegn Slóveníu.

Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem Ísland kemst í undanúrslit á stórmóti og enginn leikmaður liðsins var í hópnum síðast þegar Ísland fór í undanúrslit. Pressan hefur verið mikil.

„Þetta er ekki greið leið og ef Ungverjar hefðu ekki gefið okkur þennan séns værum við ekki hér. En við fengum séns, svona er þetta. Ég held líka að það hafi verið mikilvægt að upplifa þessar tilfinningar sem fylgdu þessum leik gegn Sviss. Við vorum svo langt niðri, en við ætluðum ekki að láta þetta fara aftur úr okkar höndum“ sagði Gísli.

Hann segir liðið hafa haldið planinu vel í dag þó dauðafæri hafi farið forgörðum, og vonar að það haldi áfram í undanúrslitunum.

„Við stöndum hér í dag, unnum sjö marka sigur á hrikalegu sterku slóvensku liði. Við klikkuðum á aragrúa aftur af dauðafærum í fyrri hálfleik en vorum samt að vinna með tveimur. Við förum aldrei frá okkar plani, mér fannst það mjög sterkt. Við vorum ekkert að panikka, eins og mér fannst við gera svolítið á móti Sviss. Mjög jákvætt merki, að við náðum að halda plani og gera það vel“ sagði Gísli að lokum.

Klippa: Gísli Þorgeir gekk í gegnum allan tilfinningaskalann



Fleiri fréttir

Sjá meira


×