Innlent

Fagnar framtaki viðskiptabanka

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna sendi frá sér ályktun í dag þar sem hún fagnar framtaki viðskiptabankanna að bjóða hagstæð húsnæðislán og þeirri samkeppni sem nú hefur myndast á þessum markaði. Vegna aðkomu einkafyrirtækja bjóðist Íslendingum nú hærri lán til íbúðarkaupa á hagstæðari kjörum en áður hafi þekkst. Hún ítrekar jafnframt þá skoðun sína að ríkið skuli draga sig úr samkeppni við fjármálafyrirtæki á þessu sviði og láti einkafyrirtækjum eftir að reka lánaþjónustu við íbúðakaupendur. Ekkert réttlæti lengur það að ríkið standi í slíkri lánastarfsemi, en heimilin í landinu skuldi ríkinu, í gegnum Íbúðalánasjóð, nú þegar meira en 400 milljarða króna. SUS hvetur í ályktun sinni, stjórnvöld til að láta af hugmyndum um hækkandi húsnæðislán Íbúðalánasjóðs og leggur þess í stað til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Þá hvetur það fjármálaráðherra og ríkisstjórn til að endurskoða tilveru hins óréttláta stimpilgjalds.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×