Innlent

18 ára kaupi bjór og léttvín

Tuttugu og þrír alþingismenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að áfengiskaupaaldur verði lækkaður úr 20 ár í 18 en þó aðeins þegar um léttvín eða bjór er að ræða. Áfram megi aðeins 20 ára og eldri kaupa áfengi 22% eða meira að styrkleika. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að lögræðisaldur hafi verið lækkaður í 18 ár fyrir aldarfjórðungi og lágmarksaldur til hjúskaparstofnunar hafi verið 18 ár í meir en þrjá áratugi. Frumvarpið sem nú er lagt fram er svipaðs eðlis og frumvarp sem rætt var á síðasta þingi. Þá mælti allsherjarnefnd með samþykkt þess með þeim rökstuðningi að það skyti skökku við að sjálfráða einstaklingar sem mættu ganga í hjónaband "gætu ekki tekið ákvörðun um kaup og neyslu léttvíns og bjórs." Frumvarpið var hins vegar ekki tekið til 2. umræðu, "sofnaði" í þinginu eins og sagt er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×