Innlent

Kærir Ríkisstjórn Íslands

Öryrkjabandalag Íslands ætlar að kæra Ríkisstjórn Íslands fyrir brot á samningum strax á nýju ári. Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, segist vonast til þess að málið verði þingfest í lok janúar eða byrjun febrúar. Hann reikni ekki með töf á dómsmálinu í dómskerfinu miðað við málavöxtu. "Í raun er það Ríkisstjórnin en ekki Öryrkjabandalagið sem er að búa til nýtt dómsmál með því að svíkja samninginn annað árið í röð," segir Garðar og bendir á að Ríkisstjórnin hafi á síðustu þremur árum verið þrisvar dæmd fyrir brot á Öryrkjabandalaginu. "Samt taka þeir blákalt þá ákvörðun að kalla yfir sig, og okkur öll, fjórða dómsmálið og það í máli sem er hundrað prósent öruggt að þeir eru sekir í. Þeir vita að við höfum nægar sannanir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þjóðina, hvar í flokki sem menn kunna að standa, þessi skortur á virðingu sem landsherrarnir virðast hafa fyrir því að fara eftir lögum og rétti í þessu landi. Einnig hve lítið mál það er í þeirra huga að láta dæma íslensk stjórnvöld. Sjálf erum við orðin hundleið á því að þurfa, ár eftir ár, að stefna sömu aðilum fyrir dóm," segir Garðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×