Innlent

Engin samþykkt í ríkisstjórn

Ríkisstjórn Íslands tók aldrei formlega ákvörðun um að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak. Þetta kom fram í máli Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra sem var gestur Kristjáns Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöld. "Það var engin formleg samþykkt gerð um það í ríkisstjórn," svaraði Halldór spurningum um hvort ríkisstjórnin í heild sinni hefði samþykkt stuðningsyfirlýsinguna eða einungis hann og Davíð Oddsson utanríkisráðherra. Halldór sagði að málið hefði verið rætt í ríkisstjórn og fullur einhugur í málinu verið meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar. "Það liggur náttúrulega alveg ljóst fyrir að þetta mál var margrætt á Alþingi, það var rætt í utanríkismálanefnd, það var rætt í þinginu," sagði Halldór. Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi vinstri grænna í utanríkismálanefnd Alþingis, segir liggja ljóst fyrir að stuðningur við innrásina í Írak hafi ekki verið ræddur í nefndinni áður en ákvörðun um hann var tekinn. "Hafi Halldór verið að ýja að því í Kastljósinu, sem ég vil nú ekki fullyrða þótt skilja hafi mátt hann þannig, þá er það náttúrlega bara fráleitur málflutningur og ömurleg tilraun til að drepa málinu á dreif."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×