Innlent

Lygabrygsl á þingi

Þingmenn vændu hvern annan um ósannindi í umræðum á Alþingi í gær þegar Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu gerði að umtalsefni orð Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra í sjónvarpsþætti á Stöð 2. Hafði Össur eftir Geir að hann hefði staðfest að Framsóknarflokkurinn stæði gegn lækkun matarskattar. Geir H. Haarde kallaði þá fram í: "Þetta er ósatt". Las Geir upp úr útprentun á ummælum sínum í þættinum: "Nei, það er ekki hægt að kenna neinum um." Athygli vekur þó að Geir vitnaði ekki til orða sem hann lét falla fyrr í þættinum um að Framsóknarflokkurinn hefði viljað far aðra leið en að lækka matarskatt um 7%. Dagný Jónsdóttir svaraði Össuri og sagði rangt að Framsóknarflokkurinn stæði einn í veg fyrir lækkun matarskattar: "Þetta er lygi" sagði þingmaðurinn og fékk fyrir ákúrur fyrir orðbragð frá Halldóri Blöndal, forseta þings. Össur Skarphéðinsson sagði Dagnýju verða tvísaga. "Í seinni ræðu hennar kom fram svart á hvítu að 5 miljarða lækkun matarreiknings heimilanna er ekki forgangsmál hjá Framsóknarflokknum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×