Innlent

Hækkun á ábyrgð orkufyrirtækja

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að fyrirhugaðar hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja á raforkuverði standist ekki skoðun. Forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa sagt að ný raforkulög leiði til mikillar hækkunar á raforkuverði á höfuðborgarsvæðinu um áramót. Ellert Eiríksson, stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, hefur sagt að hækkun á gjaldinu verði um tíu prósent. Valgerður segir að fyrirtækin reyni að knýja fram hækkanirnar á fölskum forsendum, því ný raforkulög muni hafa mun minni áhrif til hækkunar, um þrjú prósent hjá Hitaveitu Suðurnesja en um eitt prósent hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Verðhækkanir umfram það að viðbættum tveggja prósenta verðlagshækkunum séu á ábyrgð orkufyrirtækjanna sjálfra. Hún segir að fyrirtækin kunni að vera að nýta sér heimildir til aukinnar arðtöku í dreifingu raforku. Það sé hins vegar skammvinn sæla þar sem samkeppni á þessum markaði hefjist eftir ár og þá geti heimilin í landinu valið sér orkusala. Ef orkufyrirtækin ætli nú að koma illa fram við neytendur sé óvíst að þau haldi þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×