Innlent

Alþingismenn hætt komnir í flugi

"Mér skilst að það hafi verið mínútuspursmál um að ná að lenda vélinni áður en það brytist út alvöru bál,"segir Björgvin G. Sigurðsson, einn íslensku þingmannanna sem voru í farþegaflugvél frá British Airways þegar eldur kom upp í flugstjórnarklefanum eftir að öryggi brann yfir. Björgvin var í föruneyti með þingmannanefnd EFTA sem var að koma af fundi í Genf. Hinir þingmennirnir í vélinni voru Sigurður Kári Kristjánsson, Birkir Jón Jónsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Gunnar I. Birgisson og með þeim í för var Geir H. Haarde, fjármálaráðherra og settur utanríkisráðherra. Björgvin segir að hálftíma fyrir lendingu hafi flugstjórinn kallað alla yfirmenn áhafnarinnar fram í flugstjórnarklefann og það hafi verið greinilegt að eitthvað væri að. Í framhaldinu var vélinni lent í snarhasti. "Lendingin var snaggaraleg, einhvers staðar úti á braut, greinilega á fyrsta stað sem hægt var. Í kjölfarið kom fjöldi slökkviliðsbíla að vélinni og brunaliðið athafnaði sig við flugstjórnarklefann. Við þurftum að vera í vélinni lengi eftir að hún lenti og fengum engar vitrænar upplýsingar um hvað hafði gerst," segir Björgvin. Hann segir að fólk hafi haldið ró sinni prýðilega á meðan þessu stóð, en nokkrum hafi verið mjög brugðið eftir á þegar þeir gerðu sér grein fyrir hvað hafði gerst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×