Innlent

Eindreginn vilji stjórnvalda

"Verulegur áhugi og eindreginn vilji er meðal stjórnvalda til að einfalda umsóknarferli fyrir virkjanaframkvæmdir," segir Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri orku- og stóriðjumála. Horft er til Noregs þar sem einungis er sótt um eitt leyfi. Öllum upplýsingum er safnað saman af þeim sem endanlega veita leyfið. "Stefnan og tilhneigingin hefur verið sú að reyna að einfalda leyfisveitingar, stytta ferlið og koma í betri farveg," segir Helgi. Of margir hafi komið að því að veita leyfin. Helgi segir ekki ráðið hvenær ferlinu verði breytt en málin hafi oft verið rædd við önnur ráðuneyti og sveitarfélög sem komi að málum. Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, gagnrýnir að mörg ár geti tekið að afla þeirra nær tuttugu leyfa sem þurfi til að hefja virkjanaframkvæmdir. Helgi segir að komið sé inn á málefnið í frumvarpi um breytingu á mati á umhverfisáhrifum sem liggur fyrir Alþingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×