Innlent

Jón formaður stjónarskrárnefndar

Forsætisráðherra hefur skipað Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra formann stjórnarskrárnefndar, sem er ætlað að endurskoða stjórnarskrána. Geir H. Haarde fjármálaráðherra verður varaformaður nefndarinnar. Aðrir í nefndinni eru Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Pálsson, sendiherra og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Að auki mun fjögurra manna sérfræðinganefnd, skipuð stjórnmálafræðingum og lögfræðingum, starfa með nefndinni. Eiríkur Tómasson lagaprófessor er formaður hennar en auk hans skipa þau Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Björg Thorarensen lagaprófessor nefndina. Hlutverk stjórnarskrárnefndarinnar er að endurskoða einkum þrjá kafla stjórnarskrárinnar, þá sem fjalla um hlutverk og valdsvið forseta Íslands og dómsvaldið. Nefndunum er ætlað að hefja störf sem fyrst og ljúka þeim eigi síðar en í ársbyrjun 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×