Innlent

Spurt um sendiherra

Mörður Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokkana: "Tilefnið er nýleg skipan Þorsteins Pálssonar, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd." Mörður segist ekki efast um að skipanin sé lögum samkvæmt enda lagaákvæði um að utanríkisráðherra geti samþykkt slíkt. Hins vegar segist þingmaðurinn telja áhöld um hvort þetta sé eðlilegt. "Ég er að leita eftir því hvaða fordæmi séu fyrir slíku. Og ég spyr hvort það hefði talist eðlilegt ef aðrir en núverandi stjórnarflokkar hefðu skipað sendiherra í nefndina." Sem kunnugt er eru þrír fyrrverandi formenn Alþýðuflokksins og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, undanfara Samfylkingarinnar, í hópi sendiherra Íslands. Í fyrirspurninni er spurt hvaða núverandi sendiherrar gegni trúnaðarstörfum fyrir stjórnarmálaflokka og hvaða fordæmi séu fyrir slíku frá lýðveldisstofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×