Innlent

Segir ummæli Davíðs ömurleg

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir ömurlegt að hlusta á viðbrögð utanríkisráðherra við skoðanakönnun Gallups um afstöðu almennings til Íraksstríðsins. Hann segir að forystumönnum ríkisstjórnarinnar væri nær að biðja þjóðina afsökunar. Össsur segir enn fremur að sér finnist ömurlegt þegar sá maður sem stýri utanríkismálum fyrir Íslendinga skuli tala svo glannalega um niðurstöðu skoðanakönnunar þar sem 84 prósent þjóðarinnar séu á móti því að hann og núverandi forsætisráðherra hafi lýst því einhliða yfir að Íslendingar styddu innrásina í Írak. Sú ákvörðun hafi aldrei verið borin undir þingið og ráðherrarnir tveir hafi brotið lög þegar þeir hafi ekki heldur borið hana undir utanríkismálanefnd. Össur segir viðbrögð Davíðs dæmigerð fyrir menn sem hafi málað sig út í horn og séu orðnir viðskila við sína þjóð. Hann hafi þau einu skilaboð til ráðherranna tveggja að þeir ættu að sjá sóma sinn í því að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar í stað þess að tala á þann hátt sem utanríkisráðherra hafi gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×