Innlent

Segir feril Alfreðs senn á enda

Það þarf hins vegar engan sérfræðing til að átta sig á því að eftir 35 ára starf að borgarmálum hlýtur að vera farið að styttast eitthvað í annan endann á stjórnmálaferli Alfreðs Þorsteinssonar," segir Guðjón Ólafur Jónsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, á vef framsóknarmanna, hrifla.is. Í greininni leggur Guðjón út af grein Gests Gestssonar, formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur norður, sem segir að Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi sé dragbítur á flokkinn og verði að draga sig í hlé. Guðjón segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með þróun borgarmálanna, meðal annars vegna vaxandi tilhneigingar borgarfulltrúa til að safna að sér störfum í ráðum og nefndum. Hann segir langan starfsferil Alfreðs vera til vitnis um pólitískan styrk hans en vinsældir hans séu ekki eftir því og margir hafi strikað hann af lista í síðustu kosningum. Í framhaldinu spáir Guðjón því að pólitískur vitjunartími Alfreðs sé skammt undan. "Ég hef ekki lesið þetta og hef nákvæmlega ekkert um þetta að segja," segir Alfreð Þorsteinsson. "Ef ég ætti að elta ólar við allt það sem menn eru að skrifa út og suður gerði ég ekki annað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×