Innlent

Tímasetning landsfundar enn óráðin

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar mun ákveða það í kringum næstu mánaðamót hvort landsfundur flokksins fari fram í vor eða haust. Málið var rætt á fundi framkvæmdastjórnarinnar í fyrradag en ákvörðun var frestað til næsta fundar. Árni Gunnarsson, sem á sæti í framkvæmdastjórninni, segir hana velta fyrir sér dagsetningum fyrir landsfundinn. Hann segir að í haust verði orðið stutt í sveitarstjórnarkosningar og það kunni að vera óheppilegt. "Ég vil hafa fundinn í maí," segir Árni. "Þannig fengi skrifstofa flokksins betra næði til að undirbúa kosningarnar og því er heldur ekki að leyna að fyrirsjáanleg formannskosning milli Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur áhrif." Gunnar Svavarsson, formaður sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar, hefur sagt að sveitarstjórnarfólk í flokknum vilji margt flýta fundinum og halda hann í vor. Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2006 sé að hefjast og muni verða kominn á fullt skrið næsta haust, meðal annars með vali á framboðslistum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×