Innlent

Segir fjármálin í uppnámi

Neslistinn á Seltjarnarnesi segir fjárhagsáætlun bæjarins fyrir þetta ár vera í uppnámi vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við tillögu bæjarstjórnar að aðalskipulagi Seltjarnarness. Þar er gert ráð fyrir að selja land Hróflskálamels og Suðurstrandar og er áætlað söluverð 350 milljónir króna. Neslistinn segir ekki geta orðið að sölu þessara landsvæða fyrr en aðal- og deiliskipulag hefur verið samþykkt og vilja íbúafund um skipulagsmál. Í athugasemd Skipulagsstofnunar segir að skýra þurfi frá öðrum uppbyggingakostum í sveitarfélaginu, auk þess sem bregðast þurfi við athugasemdum frá 1100 bæjarbúum sem mótmæltu tillögunni. Í tilkynningu frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks á Seltjarnarnesi segir að afgreiða megi athugasemdir Skipulagsstofnunar með nánari greinargerð um uppbyggingakosti. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telji hins vegar að niðurstaðan gefi tilefni til að efna til frekara samráðs við íbúa um skipulagsáformin og mögulega framtíðaruppbyggingu á Seltjarnarnesi. Þá á skipulagsnefnd að koma á fót sérstökum rýnihópi bæjarbúa sem hafi það hlutverk að vera nefndinni til ráðgjafar og samráðs um endanlega mótun skipulagsstefnunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×