Innlent

Vill að R-listinn starfi áfram

Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segir að vísasti vegurinn til að tryggja Sjálfstæðisflokknum völd í Reykjavík sé að hætta samstarfi Reykjavíkurlistans. Hann er eindreginn stuðningsmaður þess að R-listinn bjóði fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Aukinnar gagnrýni gætir á meðal framsóknarmanna í Reykjavík á samstarf Reykjavíkurlistans. Hún beinist gegn sjálfu samstarfinu sem gangi orðið út á völd valdsins vegna og eins gegn oddvita Framsóknar, Alfreð Þorsteinssyni, sem orðið sé tímabært að skipta út. Alfreð tekur gagnrýninni með ró, segir ekkert nýtt að deilt sé um menn og málefni innan flokksins. Eftir rúman áratug á valdastóli í Reykjavík má sjá ýmis merki efasemda um áframhaldandi samstarf Reykjavíkurlistans. Vinstri - grænir voru hikandi fyrir síðustu kosningar, Guðmundur Árni Stefánsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, hefur lýst þeirri skoðun sinni að Samfylkingin eigi að bjóða fram undir eigin merkjum og Helgi Hjörvar fór hörðum orðum um R-listann í blaðaviðtali í fyrra. Þá má ekki gleyma því að formaður Framsóknarflokksins hefur lýst þeim vilja sínum að Framsókn bjóði fram sjálfstætt í Reykajvík. Alfreð telur þó ekki að þreytumerki séu á samstarfinu. Hitt sé annað mál að ef menn vilji koma Sjálfstæðisflokknum til valda á ný í Reykjavík þá sé vísasti vegurinn til þess að Reykjavíkurlistinn bjóði ekki fram. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn á árum áður oft á tíðum hafa fengið hreinan meirihluta án þess að vera með meirihluta atkvæða á bak við sig. Það hafi breyst með tilkomu Reykjavíkurlistans. Alfreð segist ekki vilja fá Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík aftur og þess vegna sé hann eindreginn stuðningsmaður þess að Reykjavíkurlistinn haldi áfram störfum. Hann telji að allt félagshyggjufólk í Reykjavík eigi að hugsa sinn gang hvað þetta varði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×