Innlent

Fá allt að 400 þúsund ofan á laun

Dæmi eru um að fyrrverandi ráðherrar sem gegna sendiherrastöðu geti haft allt að fjögur hundruð þúsund krónur ofan á laun sendiherra sem eru um milljón á mánuði. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að sjö fyrrverandi ráðherrar fá greidd eftirlaun þrátt fyrir að vera í fullu starfi á vegum ríkisins. Á síðasta ári greiddi ríkið samtals sautján milljónir í eftirlaun til þessara ráðherra. Ný lög um eftirlaun sem samþykkt voru á Alþingi í árslok 2003 gera ráð fyrir því að ráðherrar og alþingismenn geti farið á eftirlaun við sextugt. Eftirlaun þeirra eru þá þrjú prósent af þingafararkaupi fyrir hvert ár á þingi og sex prósent af ráðherraviðbót fyrir hvert ár á ráðherrastól. Svavar Gestsson, sendiherra í Svíþjóð, stendur á sextugu og getur því farið á eftirlaun. Hann sat í tuttugu og eitt ár á þingi og sjö ár sem ráðherra. Eftirlaun hans að frádregnu hálfu prósenti fyrir hvern mánuð fram að 65 ára aldri gera því 273 þúsund ofan á milljón króna sendiherralaun. Jón Baldvin Hannibalsson, sem er 65 ára, getur þannig fengið 388 þúsund ofan á sendiherralaunin og Kjartan Jóhannsson, sem var ráðherra í tvö ár og ellefu ár á þingi, getur fengið 191 þúsund á mánuði. Þessar tölur hafa ekki fengist staðfestar hjá ráðherrunum og ekki heldur hvaða fyrrverandi ráðherrar eru á fullum launum og eftirlaunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×