Innlent

Engin truflandi áhrif í útboði

"Í útboðsgögnunum voru engin skilyrði um að fyrirtæki mættu skila inn aðeins einu tilboði og í ljósi þess skiluðu nokkrir inn fleiri tilboðum og við getum ekki gert athugasemdir við það," segir Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, um gagnrýni á útboð bæjarins á byggingarlóðum við Bjarkarás. "Ég get ekki séð að þetta hafi haft truflandi áhrif á niðurstöðuna," bætir hún við. Einar Sveinbjörnsson, fulltrúi Framsóknar í bæjarráði, er ósammála Ásdísi og segir það ekki tíðkast í almennum verkútboðum að það sé hægt að gera fleiri en eitt tilboð og að bæjaryfirvöld hefðu átt að gera það ljóst. Þá segir Einar að það sé vafasamt að gengið hafi verið til samninga við Frjálsa fjárfestingabankann um kaup á byggingalóðum þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilmála um reynslu af byggingu og sölu á húsnæði. "Frjálsi fjárfestingabankinn hefur reynslu af samstarfi við verktakafyrirtæki," segir Ásdís Halla og bendir á að ekki sé búið að semja við bankann. "Hann á eftir að velja sér samstarfsaðila í þetta verkefni og við erum að kanna hver það verður áður en við tökum afstöðu til þess hvort við tökum tilboði þeirra eða ekki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×