Innlent

Leggur fram fé vegna hamfara

Ríkisstjórn Íslands ætlar að leggja til 31 milljón króna í fjársöfnun fyrir fórnarlömb fellibylsins Katrínar. Peningarnir verða lagðir í sjóð sem George Bush eldri og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, stýra. Ríkisstjórnin ákvað þetta á heldur fámennum fundi í morgun, en margir ráðherrar eru staddir erlendis þessa dagana. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að ákveðið hafi verið að leggja fram hálfa milljón dollara í sjóð Clintons og Bush eldri sem hafi verið stofnaður vegna hamfaranna. Halldór segir að um fjárframlag sé að ræða og það lagt fram í fullu samráði við Bandaríkjamenn, en þeir hafi sagt mesta þörf fyrir fé. Fénu verði varið til langtímauppbyggingar á hamfarasvæðunum. Forsætisráðherra er einnig á leið utan síðdegis í dag, en hann mun sitja leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna í New York. Halldór segir ekkert hafa breyst hvað varðar framboð Íslands til setu í Öryggisráðinu. Verið sé að fara yfir þann kostnað sem menn hafi áætlað í þessu sambandi og mörgum finnist áætlunin vera há. Hann telji rétt að draga úr kostnaðinum en það sé gert ráð fyrir að framboðinu verði haldið áfram enda hafi það verið kynnt þannig, bæði innan hinna norrænu ríkjanna sem standi á bak við Íslendinga og meðal annarra þjóða. Ísland hefur stutt breytingatillögur Kofis Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en líkur hafa minnkað á að þær gangi í gegn. Halldór segir að það séu mikil vonbrigði hvernig mál öryggisráðsins standi. Ríkisstjórn Íslands hafi vonast eftir niðurstöðu í málinu en hún sé ekki sjáanleg og því sé útlit fyrir litlar breytingar á ráðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×