Innlent

Of seint að hætta við framboðið

MYND/AP
Formaður Frjálslynda flokksins segir réttast að hætta við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Formenn Samfylkingar og Vinstri - grænna telja hins vegar of seint að hætta við. Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna eru líkt og forystumenn stjórnarflokkanna ósammála um hvort halda eigi framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til streitu. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að réttast væri að hætta við framboðið. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur hins vegar lagt áherslu á að framboðið stendur þar til annað er ákveðið. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tekur heils hugar undir orð utanríkisráðherra. Hann segir skynsamlegast að hætta við vegna mikils kostnaðar og vonar að Geir H. Haarde horfi til reynslu sinnar sem fjármálaráðherra þegar hann tekur ákvörðun um framhaldið eftir að hann tekur við embætti utanríkisráðherra. Formenn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eru á öndverðri skoðun og segja misvísandi yfirlýsingar utanríkisráðherra og forsætisráðherra orðnar vandræðalegar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir hringlandaháttinn í málinu koma sér illa fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Steingrímur J. Sigfússon vill halda framboðinu til streitu og segir orð Davíðs um að hætta við framboðið vera kaldar kveðjur til Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde sem þurfa að taka ákvörðun eftir að Davíð hættir í stjórnmálum. Allir viti að þetta sé mikið og persónulegt metnaðarmal fyrir Halldór sem hann hafi unnið mikið að þau ár sem hann hafi verið utanríkisráðherrra. Og hann segir að þetta sé „heit kartafla í lúkurnar á Geir H. Haarde sem glænýjum utanríkisráðherra, og ekki skemmtilegt að hefja embættisferilinn á því að tilkynna starfsbræðrunum á hinum Norðurlöndunumm, ef það yrði niðurstaðan, að Ísland sé hætt við,“ segir Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×