Innlent

Á móti sameiningu á Suðurnesjum

Meirihluti bæjarstjórna Sandgerðis og Garðs leggst gegn því að sveitarfélögin verði sameinuð Reykjanesbæ í almennri atkvæðagreiðslu 8. október næstkomandi og hefur andstaðan verið samþykkt í báðum bæjarstjórnum. "Mér þykir leitt að meirihlutar í þessum sveitarstjórnum hafi ekki setið á sér þar til niðurstöður sameiningarnefndar lægju fyrir, en hún skilaði af sér í fyrradag," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. "Nefndin var reyndar skipuð meirihlutamönnum sem voru andvígir sameiningu. Samt komst nefndin að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að sameina sveitarfélög á svæðinu. Þetta þykir mér mjög merkilegt miðað við að meirihluti nefndarmanna var fyrirfram á móti sameiningu," segir Árni Sigfússon. Árni kveðst andvígur því að ganga hart fram í yfirlýsingum þar til íbúar hafi kynnt sér málin, en kynningarfundir verða í öllum sveitarfélögunum þremur í lok mánaðarins. "Þannig viljum við standa að málum hér í Reykjanesbæ." Meirihluti bæjarstjórnar Garðs segir í samþykkt sinni að hún telji hagsmunum íbúanna best borgið með því að Garður verði áfram rekið sem sjálfstætt sveitarfélag enda sé staða þess sterk og framtíðarmöguleikar miklir. Í svipaðan streng er tekið í nýrri bókun bæjarfulltrúa Sandgerðis. Þar segir að eftir skoðun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga á Suðurnesjum telji bæjarfulltrúarnir umrædda sameiningu ekki tímabæra. Í bókunum beggja sveitarstjórnanna er vakin athygli á mikilli eftirspurn eftir íbúðalóðum og umtalsverðri uppbyggingu á undanförnum árum. Með því að sameina sveitarfélögin þrjú skerðist möguleikar íbúanna til þess að hafa lýðræðisleg áhrif á sitt næsta umhverfi. Íbúarnir eru jafnframt hvattir til þess að kynna sér vel öll rök málsins en þau eru meðal annars að finna á vefsíðum Garðs og Sandgerðis. Íbúar í Garði og Sandgerði eru um 13 til 14 hundruð í hvoru sveitarfélagi en tæplega 11 þúsund í Reykjanesbæ. Alls yrðu íbúarnir um 14 þúsund í sameinuðu sveitarfélagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×