Innlent

Vill þétta lista sjálfstæðismanna

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, gefur kost á sér í annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Með framboði sínu vill hann þétta lista flokksins en telur ekki ástæðu til stórtækra breytinga. Júlíus Vífill hefur mikið velt fyrir sér að bjóða sig fram í fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins á móti þeim Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Gísla Marteini Baldurssyni og freista þess að verða borgarstjóraefni flokksins. Í gær var Júlíus Vífill enn að gera upp hug sinn en í dag er niðurstaðan annað sætið þar sem hann fer fram á móti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem þegar hefur tilkynnt um framboð sitt. Júlíus segist hafa sagt fyrir nokkrum vikum að hann myndi gefa kost á sér í eitt af forystusætunum á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkkjöri sem sé eftir sex vikur. Menn hafi innt hann eftir hvaða sæti hann hafi ætlað að sækjast eftir og það hafi glatt hann mikið að margir hafi hvatt hann til að taka þátt í slagnum um fyrsta sætið. Það hafi hann hugleitt mjög mikið og meðal annars vegna þess hafi dregist hjá honum að lýsa yfir hvað hann hygðist gera.  Aðspurður hvað hafi komið til að hann ákvað að gefa ekki kost á sér í fyrsta sætið segir Júlíus að með tilliti til þess að staða borgarstjórnarstjórnarflokksins nú sé mjög sterk hafi hann hugsað að það væri kannski ekki ástæða til þess að gera stóra uppskurði og kannski að sjálfstæðismenn ættu að hugleiða það.    Kjartan Magnússon borgarfulltrúi gefur kost á sér í þriðja sætið og enn sem komið er veitir enginn honum samkeppni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×